Þingsköp Alþingis

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 16:40:12 (5032)

2001-02-27 16:40:12# 126. lþ. 77.9 fundur 147. mál: #A þingsköp Alþingis# (upplýsingar um hlutafélög) frv., 148. mál: #A hlutafélög# (réttur alþingismanna til upplýsinga) frv., Flm. GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[16:40]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir að samþykkja að þessi mál skuli tekin saman undir einum hatti enda eru þau nátengd og skarast. Fyrst vil ég lýsa yfir vonbrigðum mínum með að ekki skuli vera tækifæri til rökræðna við fulltrúa stjórnarliða, þeir eru fámennir í salnum og ekki síður að enginn fulltrúi framkvæmdarvalds skuli vera til staðar, hæstv. ráðherrar, því að mál þau sem ég mæli fyrir, þau frv. sem tilgreind voru af forsetastóli, lúta einmitt að samskiptum þings og framkvæmdarvalds. Raunar eru þessi frv. ekki ný af nálinni. Þau hafa verið flutt áður, fyrst á 122. löggjafarþingi og síðar á 125., en þessi frv. flytja auk mín nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar.

Til þess að gera grein fyrir innihaldi og efni þessara frv. þá lúta þau í stuttu máli að upplýsingagjöf framkvæmdarvaldsins til Alþingis. Það er þekktara en frá þurfi að segja að á liðnum árum hefur það færst í vöxt, sérstaklega í tíð núv. ríkisstjórnar á þessu og síðasta kjörtímabili, að ríkisfyrirtæki hafa verið hlutafélagavædd. Í sumum tilvikum hafa þau jafnharðan verið seld á markaði en í mörgum tilfellum hafa þau engu að síður haldið áfram lítt breyttum rekstri en undir merkjum hlutafélagsins sem hefur þó í fjölmörgum og flestum tilfellum verið að langmestu leyti, að öllu leyti stundum í eigu þjóðarinnar og handhafi hlutafjár hefur verið viðkomandi fagráðherra.

Á hinn bóginn hefur það gerst með þessari formbreytingu á ríkisfyrirtækjum að tengsl Alþingis og framkvæmdarvalds hafa slitnað, hafa verið rofin með þessum hætti. Það hefur m.a. birst í því að þegar hv. þm. hafa óskað upplýsinga um gang mála hjá þessum tilteknu hlutafélagavæddum ríkisfyrirtækjum hefur framkvæmdarvaldið og viðkomandi ráðherra hafnað því að veita Alþingi umbeðnar upplýsingar og borið við nauðsynlegri leynd samkvæmt hlutafélagalögum. Þetta er, herra forseti, auðvitað algerlega óþolandi með öllu og stjórnarandstaðan hefur margsinnis látið á þetta reyna í fyrirspurnum og jafnoft hefur stjórnarandstöðunni og hv. þm. hennar verið svarað út úr og með vísan til þessarar meintu túlkunar framkvæmdarvaldsins á lögum um nauðsynlega leynd samkvæmt hlutafélagalögum.

Í þessum frv. eru tekin af öll tvímæli. Í fyrsta lagi er gerð grein fyrir því í frv. til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis að: ,,Við 1. málsl. 1. mgr. 46. gr. laganna bætist: þar með talið málefni sameignar- eða hlutafélaga sem gerð er grein fyrir í E-hluta ríkisreiknings og ríkið á að hálfu eða meira.`` Með öðrum orðum þá eiga alþingismenn kröfu á því að fá upplýsingar um gang mála og stjórnunarferli ríkisfyrirtækja, hlutafélaga sem ríkið á af hálfu eða meira. Það er enda í samræmi við anda annarra laga, m.a. laga er lúta að Ríkisendurskoðun þar sem sérstaklega er tiltekin sú skylda sem á Ríkisendurskoðun er sett að endurskoða ársreikninga fyrirtækja sem ríkið á af hálfu eða meira. Satt að segja var það mikið baráttumál hér og talsvert umrætt á sinni tíð þegar þau ákvæði komu inn í lög um Ríkisendurskoðun og allir skildu það þá hér. Það er mér í fersku minni að það væri auðvitað vísbending þess efnis og raunar undirstrikun þess að engin breyting ætti að verða á samskiptum þings og framkvæmdarvalds hvað þetta áhrærir þó hf. yrði sett aftan við þessi ríkisfyrirtæki.

[16:45]

Í öðru lagi hvað varðar hugsanlega meðeigendur ríkisins í þessum hlutafélögum því að þau tilvik eru auðvitað til þar sem ríkið á 50%, 60% eða 70%, þá eru aðrir aðilar sem eru meðeigendur í þeim fyrirtækjum. Til að þeim verði ljóst þegar þeir kaupa hlut í fyrirtækjum þar sem ríkið er aðaleigandinn, þá felist í því sú kvöð að hið háa Alþingi geti krafið handhafa hlutabréfa ríkisins um upplýsingar um málefni fyrirtækisins. Og til að þeim aðilum sé það ljóst, þá vil ég taka af öll tvímæli og legg því til að við lög nr. 2/1995, um hlutafélög, bætist við ný málsgrein svohljóðandi:

,,Hlutafélögum, sem teljast til E-hluta ríkisreiknings og ríkið á að hálfu eða meira, er skylt að veita Alþingi sömu upplýsingar um opinbert málefni og ríkisfyrirtækjum.``

Herra forseti. Í þessu samhengi er lykilorðið ,,opinbert málefni``. Það er gegnumgangandi í þingskapalögum, það er gegnumgangandi raunar í stjórnarskrá og er þetta lykilhugtak, að Alþingi ber samkvæmt stjórnarskrá að hafa eftirlit með framkvæmd laga og framkvæmdarvaldinu þar sem um opinber málefni er að ræða.

Herra forseti. Við erum ekki að tala um nein smámál í þessu samhengi og vil ég vísa til þess að í endurskoðun ríkisreiknings frá 1999, sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér síðasta haust, er á bls. 79 gerð grein fyrir þessum hlutafélögum og sameignarfélögum í áðurnefndum E-hluta ríkisreiknings, þ.e. þeim ríkisfyrirtækjum sem hafa verið háeff-vædd. Við erum að tala um veltu eigin fjár þessara fyrirtækja upp á 70 milljarða kr. Ég segi og skrifa, 70 milljarða kr. Raunin hefur verið sú hvað varðar málefni þessara fyrirtækja sem eru upp á þessar stærðir, að því er svarað til þegar hv. þm. spyrja: Nei, þetta er ekki á ykkar könnu, þessu er ekki heimilt að svara vegna þess að hlutafélagalög og leynd því samfara segir þar til um.

Ég er að tala hér um ríkisfyrirtæki og hlutafélög á borð við Búnaðarbanka Íslands þar sem ríkissjóður á 73,8%, fyrirtæki á borð við Landsbanka Íslands þar sem ríkissjóður á 71,9%, minna fyrirtæki eins og Breiðafjarðarferjuna Baldur þar sem ríkið á 80%, Flugkerfi hf., Internet á Íslandi hf., Íslandspóst þar sem ríkissjóður á 100% og eigið fé fyrirtækisins er upp á 2 milljarða og 40 millj. kr., Kísiliðjuna þar sem ríkið á 51%, en þar eru að vísu að verða breytingar á fljótlega, Landssíma Íslands þar sem eigið fé fyrirtækisins er upp á 13 milljarða kr. en verðmæti fyrirtækisins er upp á 50--60 milljarða, þannig að sú tala sem ég nefndi áðan, heildar eigið fé er sennilega langtum nær því að vera um eða yfir 100 milljarða heldur en 70 milljarða. Ég nefni einnig Skallagrím, Skráningarstofuna hf., Hitaveitu Hjaltadals að Landsvirkjun ógleymdri þar sem eignarhlutur ríkisins er 50%.

Fróðlegt er að fylgjast með því, herra forseti, hvernig Ríkisendurskoðun, sem lýtur stjórn þingsins, afgreiðir þessi mál og hantérar fyrir hið háa Alþingi í þessari endurskoðun á skýrslu ríkisreiknings. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Endurskoðunarskýrslur hlutafélaga eru lagðar fyrir stjórn og endurskoðendum er skylt að svara spurningum hluthafa um atriði sem varða ársreikning fyrirtækja á aðalfundi. Ríkisendurskoðun er á hinn bóginn ekki heimilt að birta efnisleg atriði úr slíkum skýrslum í endurskoðunarskýrslu sinni um ríkisreikning viðkomandi árs þar sem hlutafélög eru einkaréttarlegir aðilar þó svo þau séu í meirihlutaeign ríkissjóðs.``

Herra forseti. Hér er vísað til álitsgerðar sem Stefán Már Stefánsson setti saman fyrir einum fimm árum, ef ég man rétt, og hæstv. forsrh. dreifði. Sú niðurstaða sem sá lagaprófessor komst að var mjög umdeilanleg og er enn og ég gagnrýni það og hef gert áður að Ríkisendurskoðun, sem lögum samkvæmt er að endurskoða fyrirtæki sem ríkið á að hálfu eða meira, skuli afgreiða mál með jafnsnubbóttum hætti og hún gerir hér og segir einfaldlega að henni sé ekki heimilt að upplýsa um málefni þessara fyrirtækja með vísan til þess að um einkaréttarlega aðila sé að ræða. Ég spyr, herra forseti: Eru það einkaréttarlegir aðilar, svo ég taki einfalt dæmi þar um, þar sem ríkissjóður og samgrh. fara að öllu leyti með hlutafé í Íslandspósti, þar sem hæstv. samgrh. fer að öllu leyti með hlutafé í Landssíma Íslands? Hvaða einkaréttarleg skilyrði eru það sem gera það að verkum að hinu háa Alþingi sem ber samkvæmt stjórnarskrá að fylgjast með þessu er meinað um upplýsingar? Hvaða skilyrði eru það sem eru einkaréttarlegs eðlis í því samhengi? Spyr sá er ekki veit.

Herra forseti. Hér eru mál auðvitað dálítið broguð og það er af þeim ástæðum sem ég og félagar mínir og kollegar, hv. þm. Samfylkingarinnar taka af öll tvímæli í þessa veru og ég sá mér þann kost vænstan að mæla fyrir þessu máli þótt ég hafi vitað um að ekki væri unnt að kalla út nokkra ráðherra til andsvara þó að eðlilegt væri að þeir kæmu til umræðna um þetta mikilvæga mál. Ég kaus það frekar til þess að fá málið til umfjöllunar í viðkomandi nefndum þingsins og þaðan út fyrir vorið því að það er ekki seinna vænna en á þessu stóra máli sé tekið.

Einnig er rétt að geta að í þessari endurskoðun ríkisreiknings frá Ríkisendurskoðun vekur Ríkisendurskoðun athygli á því að hún endurskoðar sjálf eingöngu fjögur félög af þessum tólf sem um er að ræða og er að finna í E-hluta ríkisreiknings og er vísað til þess að endurskoðun ríkishlutafélagabankanna var á sínum tíma boðin út og eru þau endurskoðuð af endurskoðunarfyrirtækjum en meðárituð af ríkisendurskoðanda í samræmi við lagaákvæði þar um. Ég vek sérstaka athygli á þessu til að rifja það upp að ekki var heiglum hent að fá úr því skorið á sínum tíma hvað þessi meðáritun þýddi í raun. Þýddi hún í raun ábyrgð Ríkisendurskoðunar á því að ársreikningurinn sýndi rétta og sanna mynd af viðkomandi fyrirtæki eða var bara um einhvern formlegan gjörning að ræða? Þeirri spurningu er enn þá ósvarað, ef ég man rétt, og lýtur kannski ekki beinlínis að þessu frv. sem hér um ræðir en er þó nátengt því atriði.

Einnig greinir Ríkisendurskoðun frá því að hjá fjórum félögum eru endurskoðunarfyrirtæki ráðin af stjórnum þeirra. Þetta vekur allt einnig nokkrar spurningar en er hér fyrst og síðast tínt til til að gefa fyllri og heillegri mynd af stöðu þessara mála.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Hér er um grafalvarlegt mál að ræða, stórmál af formlegum og efnislegum toga og auðvitað algerlega óþolandi að hið háa Alþingi þurfi að búa við slík kjör að því sé svarað aftur og aftur af fulltrúum framkvæmdarvaldsins að því komi það í rauninni ekkert við hvernig kaupin gerast á eyrinni og hvernig rekstri er háttað hjá stórum fyrirtækjum hér á landi sem eru að stórum hluta og stundum öllum hluta í eigu þjóðarinnar. Þess vegna legg ég á það ríka áherslu að þetta mál gangi inn í viðkomandi nefndir sem ég geri tillögu um að verði annars vegar allshn. og hins vegar efh.- og viðskn. en þó þannig að þær hafi samráð sín á milli um gang málsins því að, eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, hér eru tvö frv. náskyld hvort öðru og geta tæplega án hvors annars verið. Hér er mál sem þörf er að kippa í liðinn og því fyrr, því betra.