Þingsköp Alþingis

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 17:11:33 (5034)

2001-02-27 17:11:33# 126. lþ. 77.9 fundur 147. mál: #A þingsköp Alþingis# (upplýsingar um hlutafélög) frv., 148. mál: #A hlutafélög# (réttur alþingismanna til upplýsinga) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[17:11]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að taka undir með þeim markmiðum sem sett eru fram í þessum frv. Ég tel fulla ástæðu til að flytja þau og að þær breytingar verði að veruleika sem hér eru lagðar til.

Það er alveg greinilegt að sú þróun sem hefur orðið á undanförnum árum, þ.e. að fyrirtækjum sem voru í eigu ríkisins, voru ríkisstofnanir, hefur verið breytt í hlutafélög. Það hefur haft þær afleiðingar í för með sér að margt af því sem var áður ljóst og þingmenn áttu aðgang að er ekki lengur til staðar. Þingmönnum hefur verið neitað um upplýsingar um þessi fyrirtæki. Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort ástæða er til, þ.e. hvort ráðherrar hafa í raun og veru haft ástæðu til þess að neita þinginu um þessar upplýsingar. Ég dreg stórlega í efa að þau hlutafélög sem hér hefur verið rætt um í dag hafi neitað ráðherrum um þessar upplýsingar. Mér finnst það með miklum ólíkindum ef hæstv. ráðherrum er neitað um upplýsingar frá stjórnum hlutafélaga sem ríkið á meiri hluta í. Stærsti hluthafinn hefur alltaf möguleika á því að setja á hluthafafund ef honum líkar ekki hvernig staðið er að því að undirbúa og koma til hans upplýsingum um þau málefni sem hann vill vita um og fylgjast með hjá viðkomandi fyrirtækjum. Þess vegna dreg ég í efa að ráðherra hafi verið neitað um einhverjar upplýsingar. Hafi hann borið sig eftir upplýsingum hjá viðkomandi fyrirtækjum tel ég að hann hafi getað fengið þær. Ég tel að formenn stjórna þessara fyrirtækja mundu aldrei neita ráðherra um slíkar upplýsingar sem hafa verið nefndar hér sem ástæða til fyrirspurna um. Þá hlýtur maður að þurfa að velta því fyrir sér hvort ráðherra telji sig þá vera bundinn af einhverjum reglum og megi ekki svara þinginu af þeim ástæðum. Ég held að það hefði verið við hæfi að einhverjir af hæstv. ráðherrum hefðu verið hér til að útskýra hvers vegna þeir telja sig ekki geta svarað þeim spurningum sem hafa verið bornar fram og benda þingmönnum á þá annmarka sem eru á því að þeir geti miðlað þessum upplýsingum. Að það skuli þurfa að flytja þessi frv. bendir til þess annars vegar að ráðherra telji sig vera í þessari stöðu en það getur líka bent til þess að ráðherrar hafi í raun og veru ekki haft vilja til að færa þessar upplýsingar hingað inn. Ég hef ástæðu til að halda að svo sé í sumum tilfellum. Það hafi ekki verið vilji ráðherranna að flytja upplýsingarnar til Alþingis. Í sumum tilfellum hafi það þýtt fyrir hlutafélagavæðingu vissra stofnana að menn hafi ekki viljað að þær væru til umræðu á hv. Alþingi og það væri nú að gerast hjá þeim fyrirtækjum sem eru nú orðin hlutafélög en voru áður stofnanir í eigu ríkisins.

[17:15]

Það er því ýmislegt sem má gera ráð fyrir að valdi því að þingmenn fái ekki þær upplýsingar um stofnanir og fyrirtæki sem þeir hafa sóst eftir. Ef þau lagafrv. sem hér liggja fyrir verða samþykkt yrði það a.m.k. engin hindrun í vegi þeirra ráðherra sem ættu hlut að máli og væru krafðir um svör. Hins vegar er þá spurningin hve mikið þeir vilja leggja á sig til að veita slíkar upplýsingar. Munu þessi frv. þá duga til þess? Það ætla ég að vona. Ég vonast auðvitað til þess að hæstv. ráðherrar séu yfirleitt ekki í þeirri stöðu að þeir vilji ekki að upplýsingar af því tagi sem hér hefur verið rætt um sérstaklega komist á framfæri á hv. Alþingi. Ég vona að það sé ekki þannig. En ég verð að viðurkenna að þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var að fara yfir svarið sem hún fékk í hendurnar frá hæstv. viðskrh., þá flögraði það meira en lítið að mér að hæstv. ráðherra hefði ekki kært sig um að draga þær upplýsingar fram og koma þeim á framfæri í þinginu því að svörin voru þannig. Þá erum við náttúrlega ekki í góðum málum ef það er svo.

Ég held hins vegar að viðkomandi fyrirtæki sem þarna var til umræðu hafi bara gott af því að rætt sé um það opinberlega sem þar hefur verið dregið fram. Öll hafa þessi atriði komið fram í fjölmiðlum þannig að það er ekkert nýtt þó að um þau sé rætt opinberlega. Á meðan ríkið á meiri hlutann í því fyrirtæki er ekkert eðlilegra en að um fyrirtækið og þau vandamál sem það á við að glíma sé rætt á hv. Alþingi. Þess vegna tel ég mikla ástæðu til að menn hraði umfjöllun um þau mál sem hér eru til umræðu og að þessi frv. verði að lögum frá Alþingi í vetur, sem allra fyrst, til þess að hæstv. ráðherrar verði þá skornir niður úr þeirri snöru sem þeir þykjast vera í, að geta ekki svarað þeim spurningum sem bornar eru upp um þessi fyrirtæki.

Ég vil aðeins bæta við ræðu mína, hæstv. forseti. Það er ástæða til að gera fleiri athugasemdir við það fyrirkomulag sem nú er í gildi hvað varðar fyrirtæki sem eru í eigu ríkisins og eru í hlutafélagaformi. Það er niðurlægjandi fyrir hv. Alþingi að ráðherrar skuli nánast hafa þessi fyrirtæki eins og stórbændur höfðu í seli áður fyrr. Það eru bara einkamál þeirra að reka fyrirtæki eins og sementsverksmiðju eða banka úti í bæ og þeir vilja ekkert að verið sé neitt að rýna í það sem þar er að gerast. Og þeir skipa menn í stjórnir þessara fyrirtækja fríhendis. Enginn veit hvaða reglur gilda um það. Það virðast engar reglur gilda um það hvernig skipað í stjórnir þessara fyrirtækja.

Ég held að hér á hv. Alþingi þyrfti að fara yfir það og koma einhverjum böndum á það og reglum hvernig skipað yrði í stjórnir þeirra fyrirtækja sem ríkið á og rekur. Það er ekkert eðlilegt við það að hæstv. ráðherrar hafi það bara í rassvasanum hvernig með þessa hluti er farið og kannski er það hluti af öllu því dæmi sem við erum að ræða um í dag, að þeim finnst það vera nánast sitt einkamál hvernig farið er með fyrirtæki í eigu ríkisins.

Mín lokaorð eru þau að ég vona að hv. Alþingi hafi þroska til þess að taka á vandamálum eins og þeim sem hér eru til staðar og afgreiði þau mál sem allra fyrst.