Umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 13:32:32 (5039)

2001-02-28 13:32:32# 126. lþ. 78.92 fundur 336#B umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 126. lþ.

[13:32]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Í gær gerðist það í hv. menntmn. Alþingis að fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni fóru fram á það að nefndin skoðaði að eigin frumkvæði ákvæði 53. gr. grunnskólalaga en túlkun þeirrar greinar hefur verið í umræðu upp á síðkastið vegna málefnaástands skóla í Hafnarfirði. Túlkun hæstv. menntmrh. felur í sér að heimilt sé að bjóða út kennsluþátt í grunnskólum en þessu hafa fulltrúar Samfylkingarinnar og fleiri mótmælt harðlega.

Skemmst er frá því að segja, herra forseti, að fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni höfnuðu öllum beiðnum hv. nefndarmanna Samfylkingarinnar um að skoða málið í nefndinni. Í kjölfarið var hæstv. forseta Alþingis ritað bréf þar sem farið var þess á leit við hann að hann beitti áhrifum sínum til að nefndarmenn gætu rækt þingskyldur sínar, eins og það var orðað í bréfinu. Þessari beiðni var komið til forseta í ljósi 3. mgr. 8. gr. þingskapa en samkvæmt því ákvæði hefur forseti umsjón með starfi þingnefnda.

Rétt áður en þessi fundur hófst bárust hv. nefndarmönnum Samfylkingarinnar í menntmn. bréf frá hæstv. forseta þar sem hann hafnar því að hafa afskipti af málinu og vísar til þess að málið sé á forræði nefndarinnar.

Herra forseti. Ég hlýt að lýsa vonbrigðum mínum með afstöðu forseta til málsins og spyrja hann í ljósi þess hver sé réttur minni hluta til að fá faglega umræðu um mál sem meiri hlutinn hafnar að ræða í nefndum. Ég vil vísa til þess, herra forseti, að hér er um að ræða mál sem hefur mjög verið deilt um í samfélaginu. Það er um að ræða mál sem snýst um túlkun á lögum sem hafa verið samþykkt frá hinu háa Alþingi og, herra forseti, ég hlýt að spyrja: Hver er réttur minni hlutans til að fá faglega umræðu í nefnd á grundvelli 26. gr. þingskapa um mál sem meiri hlutinn hafnar að taka upp eins og er tilfellið í því máli sem hér er til umræðu?