Umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 13:34:28 (5040)

2001-02-28 13:34:28# 126. lþ. 78.92 fundur 336#B umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga# (aths. um störf þingsins), Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 126. lþ.

[13:34]

Forseti (Halldór Blöndal):

Af þessu tilefni þykir mér rétt að lesa þau bréfaskipti sem orðið hafa til að þau liggi ljós fyrir þingheimi.

Fyrra bréfið er stílað á forseta Alþingis, Halldór Blöndal, og dagsett 27. febr. 2001.

,,Á fundi menntmn. í dag fóru undirritaðir fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni fram á eftirfarandi:

1. Að fulltrúi úr menntmrn. kæmi á fund nefndarinnar til að færa rök fyrir þeirri túlkun menntmrh. á 53. gr. grunnskólalaga að sveitarfélögum væri heimilt að bjóða út kennsluþátt í grunnskólum sem fram kom hjá ráðherranum í utandagskrárumræðum um málefni Áslandsskóla á Alþingi mánudaginn 12. febrúar 2001.

2. Að nefndin fjallaði um túlkun 53. gr. grunnskólalaga á grundvelli 26. gr. þingskapalaga.

3. Að óskað yrði eftir minnisblaði frá menntmrn. vegna túlkunar á 53. gr. grunnskólalaga.

Öllum þessum beiðnum var hafnað með atkvæðum þriggja fulltrúa Sjálfstfl. í nefndinni gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar.

Undirritaðir fulltrúar í menntmn. fara þess á leit við forseta Alþingis að hann beiti áhrifum sínum til að undirritaðir geti sinnt þingskyldum sínum samkvæmt 26. gr. þingskapalaga. Væntum við þess að nú þegar geri forseti formanni nefndarinnar og meiri hluta hennar þetta ljóst þannig að strax á morgun verði efnt til aukafundar í nefndinni þar sem fjallað verði um ofangreint mál.

Einar Már Sigurðarson.

Sigríður Jóhannesdóttir.

Afrit sent formönnum allra þingflokka, formanni menntmn. og fjölmiðlum.``

Ég vil láta þess getið svona til gamans að ég spurði fréttamann sem hringdi í mig vegna þessa bréfs hvenær það hefði verið sent. Kom í ljós að það hafði verið sent allnokkru fyrr en ritara mínum barst bréfið í hendur og þykir mér satt að segja undarlegt að forseti Alþingis skuli ekki fá þau bréf í hendur sem honum eru send áður en fjölmiðlar fá þau í hendur. (SvH: Þú ert nú vanur snörum bréfasendingum.)

Hér er svarbréf mitt til Einars Más Sigurðarsonar og Sigríðar Jóhannesdóttur alþingismanna, dags. 28. febrúar 2001:

,,Mér hefur borist bréf, dags. 27. febrúar 2001, þar sem þess er óskað að forseti ,,beiti áhrifum sínum`` til að fram fari fundur í menntmn. Alþingis til þess að fjalla um mál með vísan til 26. gr. þingskapa.

Sú grein þingskapa hljóðar svo:

,,Heimilt er nefnd að eigin frumkvæði að fjalla um önnur mál en þau sem þingið vísar til hennar. Um slík mál getur nefnd gefið þinginu skýrslu, sbr. 31. gr.``

Eins og ljóst má vera af ákvæði greinarinnar er sú heimild, sem hún veitir nefndum þingsins til umfjöllunar um mál að eigin frumkvæði, í höndum nefndanna sjálfra og þar getur enginn annar átt aðild að.

Halldór Blöndal.``

Ég vil jafnframt láta þess getið að fyrir Alþingi liggur frv. til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 66/1995. Flutningsmenn eru Guðmundur Árni Stefánsson o.fl. Þar er komið að því efni sem hér er fjallað um og mun menntmn. að sjálfsögðu fá frumvarpið til meðferðar ef Alþingi tekur ákvörðun um að vísa því til hennar eftir að talað hefur verið fyrir frumvarpinu.