Umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 13:40:07 (5042)

2001-02-28 13:40:07# 126. lþ. 78.92 fundur 336#B umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 126. lþ.

[13:40]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Vissulega er staðreynd að stjórnarandstaðan öll á aðild að frv. sem lagt hefur verið fyrir Alþingi og gengur út á að taka af öll tvímæli um túlkun á grunnskólalögum á þann veg að útilokað yrði að leggjast í tilraunastarfsemi með grunnskóla landsins. En staðreyndin er þessi: Hæstv. menntmrh. hefur sterklega gefið í skyn að hann hyggist veita heimild til þess að grunnskóli í Hafnarfirði verði einkavæddur og það verði gert samkvæmt túlkun hans á 53. gr. grunnskólalaga.

Fulltrúar í menntmn. hafa óskað eftir því að fram fari um það umræða nú í nefndinni hvernig túlka beri þessa tilteknu grein áður en hæstv. menntmrh. veitir þessa heimild. Jafnframt hefur verið óskað eftir því að hæstv. menntmrh. leggi fram minnisblað um málið og skilning sinn á túlkun lagagreinarinnar svo um hana geti farið fram vönduð og málefnaleg umræða. Það er gegn vinnubrögðum af þessu tagi sem meiri hlutinn á Alþingi ætlar að leggjast. Ég leyfi mér að biðja menn að endurskoða þessa afstöðu sína. Það er mikilvægt að þingið geti farið yfir þetta alvarlega mál sem hefur valdið miklum deilum í samfélagi okkar og fjallað um það á málefnalegan og vandaða hátt. Um það stendur deilan.