Setning reglna um kosningar skv. 26. gr. stjórnarskrár

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:07:42 (5057)

2001-02-28 14:07:42# 126. lþ. 79.1 fundur 427. mál: #A setning reglna um kosningar skv. 26. gr. stjórnarskrár# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:07]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Fyrir nokkrum vikum varð það tilefni nokkurrar umræðu einu sinni sem oftar hvort forseti Íslands mundi beita valdi sínu til að synja staðfestingar þingmáli eða lagafrv. sem laga frá Alþingi.

Í þessu sambandi má einnig vitna í viðtal við hæstv. forsrh. sem var á sjónvarpsstöðinni Skjár 1 skömmu eftir að lög höfðu verið sett í kjölfar svonefnds öryrkjadóms eða dóms í öryrkjamáli. Þá velti hæstv. forsrh. upp þeirri spurningu hver ætti að standa fyrir því að sett væru ákvæði um allsherjaratkvæðagreiðslu eða þjóðaratkvæði um frv. sem forseti kynni að hafa synjað staðfestingar á og sagði þá m.a., með leyfi forseta:

,,Hver átti að ákveða hvenær yrðu kosningar? Það stendur bara`` --- og þar er vísað til stjórnarskrárákvæðanna --- ,,að það sé rétt að hafa kosningar svo fljótt sem hentugt væri eða fært væri eða þess háttar. Hver ætti að ákveða það? Það stendur hvergi. Hver ætti að ákveða hvernig spurningarnar væru? Það stendur hvergi. Hver hefði átt að ákveða hvort í tvo eða þrjá mánuði þyrftu umræður í þjóðfélaginu eða viku og engar umræður? Það stendur hvergi. Þannig að menn hefðu orðið að byrja á því ef þú skoðar til að mynda vangaveltur Ólafs Jóhannessonar að fara í þingið og vera í einn til tvo mánuði að setja lög um þetta. Hvort forsætisráðherra ætti að sjá um þetta, sem sennilega væri líklegasti stjórnsýslu- og stjórnlagaráðherrann eða dómsmálaráðherra sem sér oft um kosningar o.s.frv.``

Síðar í sama viðtali kemur fram að þó að hæstv. forsrh. telji naumast hægt að hugsa sér þær aðstæður að forseti lýðveldisins mundi beita þessu synjunarvaldi, þá sé það e.t.v. ekki með öllu útilokað. Ég leyfi mér að túlka ummæli hæstv. forsrh. svo, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Það er mín skoðun miðað við alla þessa reynslu að þá sé naumast hægt að hugsa sér þær aðstæður að þetta ákvæði væri notað. Ég hefði þó talið, og forseti Íslands hefur sagt það líka, að ef stór atburður eins og það ef menn færu í ESB án þess að spyrja þjóðina, þá tel ég að þar séum við komin að endimörkum þess sem forseti ætti að leyfa.``

Ég kýs að túlka þetta svo að hæstv. forsrh. telji það ekki óhugsandi að þær aðstæður kynnu að koma upp að þessu valdi yrði beitt. Með vísan til þess sem hæstv. ráðherra sagði sjálfur, að sennilegt verður þá að telja að það ætti að vera í hlut forsrh. að sjá um að setja reglur um slíka kosningu, hef ég leyft mér að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hyggist beita sér fyrir því að slíkar reglur verði settar um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu sem tiltækar væru ef til þess kæmi að forseti Íslands beitti ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar og synjaði staðfestingar á lögum.