Setning reglna um kosningar skv. 26. gr. stjórnarskrár

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:18:43 (5060)

2001-02-28 14:18:43# 126. lþ. 79.1 fundur 427. mál: #A setning reglna um kosningar skv. 26. gr. stjórnarskrár# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að þetta kemur til umræðu á vissan hátt sem svar við næstu fyrirspurn. En eins og ég segi, það kom mér á óvart þegar ég svaraði þessum spurningum í sjónvarpsþætti að það virtist vera að menn hefðu ekki hugsað þessi atriði mjög mikið, hvað stæði opið til að mynda í aðdraganda forsetakosninga þegar slík mál hafa komið upp, þá eru frambjóðendur gjarnan spurðir hvort þeir mundu beita slíku ákvæði. Það hefur ekkert í umræðunni verið um það hvað mundi gerast og hvernig þetta mundi verða.

En ég tók eftir því jafnframt að núverandi forseti Íslands hefur í rauninni þrengt skilninginn á notkunarmöguleikanum miðað við það sem sumir hafa talið. Ég minnist þess í umræðunni að sumir hafa talið að ef forsetinn teldi að vafi kynni að leika á því hvort lög frá Alþingi stæðust stjórnarskrána, þá hafa sumir talið að við þær aðstæður ætti forsetinn að beita neitunarvaldi sínu. En núverandi forseti tjáði sig mjög skýrt með skriflegum hætti um að það væri ekki í verkahring forsetans að synja frv. á þeim forsendum og meira að segja ekki í verkahring þjóðarinnar, eins og hann tók fram --- ég tek fram að þetta er bara efnislega, þetta er ekki orðrétt --- ekki í verkahring þjóðarinnar að kveða upp úr um það hvort lög stangist á við stjórnarskrá, þannig að með þessu hefur a.m.k. skilningur núverandi forseta Íslands þrengt þau sjónarmið sem sumir hafa haft. Sumir hafa bara sagt sem svo: Ja, ef það er einhver óróleiki, þá er bara sjálfsagt að vísa málinu til þjóðarinnar, ef það er deilt um það o.s.frv., ég tala nú ekki um ef deilt er um stjórnarskrárþáttinn. En forsetinn lokaði sem sagt fyrir þann þáttinn af sinni hálfu.

Ég minni líka á það hver þróunin var í sögunni. Þjóðhöfðinginn, þ.e. konungurinn, hafði neitunarvald. Síðan var ákveðið að takmarka neitunarvald þjóðhöfðingjans gagnvart þinginu með því að ef þjóðhöfðinginn neitaði þinginu um að fá lög staðfest, þá gæti þjóðin gripið í taumana gagnvart þjóðhöfðingjanum. Þetta var ekki einhver tilvísun til þjóðarinnar, menn hafa misskilið það. Hann hafði hreint neitunarvald, gat bara neitað, síðan fékk hann takmarkað neitunarvald með þeim hætti að ef hann neitaði þinginu þá gat þjóðin gripið í taumana. Þetta hafa menn túlkað svo af einhverjum ástæðum, sennilega af þekkingarleysi, að hann væri einhvers konar vegvísir til þjóðarinnar. Það er ekki.