Skipan stjórnarskrárnefndar

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:30:10 (5063)

2001-02-28 14:30:10# 126. lþ. 79.2 fundur 428. mál: #A skipan stjórnarskrárnefndar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:30]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu stóra máli og jafnframt hæstv. forsrh. fyrir svör hans. Í öllum meginatriðum er ég alls kostar sáttur við þær áherslur sem hæstv. forsrh. leggur varðandi mikilvægi þess og nauðsyn að skoða á nýjan leik ákveðna kafla stjórnarskrárinnar. Sumir þeirra eru eins og hæstv. forsrh. gerði glögga grein fyrir orðnir gamlir og í litlu samræmi við nútímann.

Ég fagna því yfirlýsingu hæstv. forsrh. þess efnis að nú fljótlega geti hafist vinna við endurskoðun þessara tilteknu þátta. Ég trúi því og vil treysta að um fyrirkomulag þeirrar vinnu og tímasetningar geti náðst nokkuð góð sátt á hinu háa Alþingi.

Kannski er í of mikið lagt að stefna að því að ljúka því fyrir næstu reglulegu þingkosningar sem eiga að vera árið 2003 en það er þó ekki útilokað og rétt að hafa það í huga.