Skipan stjórnarskrárnefndar

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:34:32 (5066)

2001-02-28 14:34:32# 126. lþ. 79.2 fundur 428. mál: #A skipan stjórnarskrárnefndar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég tel að misskilnings hafi gætt í orðum hv. þm. Péturs H. Blöndals. Þegar menn tala um framkvæmdarvaldið hér á landi tala þeir gjarnan um það eins og það sé sambærilegt vald og í Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum situr samfellt og ætíð utanþingsstjórn alla tíð. Hér heyrir utanþingsstjórn til undantekninga. Vegna þingræðisreglunnar er það svo að framkvæmdarvaldið lýtur forustu þingræðismeirihlutans á hverjum tíma. Þing færir sig inn í framkvæmdarvaldið með þessum hætti. Menn rugla þessu stundum saman þannig að oftast nær er það þannig að oddviti ríkisstjórnarinnar eða oddvitar ríkisstjórnarinnar eru jafnframt oddvitar þingræðismeirihlutans á þinginu hverju sinni. Þarna eru ekki þessi glöggu skil á milli eins og er til að mynda í Bandaríkjunum. Menn nota hugtökin stundum þannig. En þetta getum við rætt betur á öðrum tíma.

Ég vil jafnframt nefna til viðbótar því sem ég sagði áður um hvað menn geta kannski skoðað varðandi endurskoðun stjórnarskrár, þá nefni ég það til sögunnar að stjórnarskráin er mjög fáorð um hlutverk ríkisstjórnar. Æskilegt væri að stjórnarskrá mætti ráða hvert hlutverk ríkisstjórnarfunda ætti að vera. Eiga þeir eingöngu að vera pólitískur samráðsvettvangur eða má jafnframt fela þeim stjórnsýslu? Ætti að styrkja agavald ríkisstjórnar og ráðherrafunda yfir einstökum ráðherrum til að mynda þannig að þeir fari ekki fram með önnur þingmál en þau sem ríkisstjórnin stendur öll að? Staðfesting milliríkjasamninga sé undirorpin samþykki ríkisstjórnar o.s.frv.?

Þá hafa ákvæði um skipulag Alþingis nýlega verið endurskoðuð. Ástæða kann hins vegar að vera að halda áfram á sömu braut og hyggja þar að fleiri atriðum en þá komu til skoðunar, svo sem um störf og starfshætti þingsins. Stjórnarskráin geymir til að mynda ekkert ákvæði um eftirlitsstofnanir Alþingis ef frá er talið fyrirheit 43. gr. um að ríkisendurskoðun skuli fara fram á þess vegum. Til greina kæmi að treysta tilvist umboðs Alþingis til að mynda í stjórnarskránni. Svo mætti nefna fleiri atriði. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp um hvernig mætti efla áhrif fjárlaga sem hagstjórnartækis og stjórnarskrárvernda það o.s.frv. Rætt hefur verið um hvort unnt væri að mæla skýrar fyrir um rétt þingmanna til að krefja ráðherra upplýsinga um opinber málefni og skyldu ráðherra til að láta þær í té svo að nokkur atriði séu nefnd sem hlytu að koma þar til skoðunar.