Sveigjanleg starfslok

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:38:58 (5068)

2001-02-28 14:38:58# 126. lþ. 79.3 fundur 435. mál: #A sveigjanleg starfslok# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:38]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur spurt:

,,Hvað líður störfum nefndar forsætisráðherra um sveigjanleg starfslok? Hvenær mun hún skila tillögum sínum?``

Hinn 9. maí sl. samþykkti Alþingi þál. þar sem skorað er á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að móta tillögur um sveiganleg starfslok. Forsrn. óskaði eftir tilnefningum í nefndina frá helstu hagsmunaaðilum með bréfi í nóvembermánuði á síðasta ári. Að þeim fengnum skipaði forsrh. í nefndina á fyrri hluta janúarmánaðar. Formaður nefndarinnar er hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson en ásamt honum sitja í nefndinni Jón H. Magnússon samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, Þorbjörn Guðmundsson samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands, Már Ársælsson samkvæmt tilnefningu Bandalags háskólamanna, Arna Jakobína Björnsdóttir samkvæmt tilnefningu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Gunnar Rafn Birgisson samkvæmt tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga og Ásta Lára Leósdóttir samkvæmt tilnefningu fjmrn.

Verkefni nefndarinnar er svo lýst í skipunar- og erindisbréfi:

,,Nefndin skal gera grein fyrir lögum, reglum og venjum er gilda um starfslok launþega, bæði hjá opinberum aðilum og á almennum vinnumarkaði. Nefndin skal gera grein fyrir því hvernig starfslokum er háttað í þeim nágrannalöndum sem gjarnan eru höfð til viðmiðunar hér á landi. Nefndin skal gera grein fyrir vandkvæðum og álitamálum sem uppi eru varðandi fyrirkomulag starfsloka. Nefndin skal fjalla um valkosti og mögulegar breytingar varðandi fyrirkomulag starfsloka og ráðstafanir sem slíkar breytingar mundu útheimta, til að mynda varðandi iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóði og lífeyrisgreiðslur.``

Í tilvitnuðu skipunar- og erindisbréfi segir jafnframt að æskilegt sé að nefndin ljúki störfum fyrir árslok 2002 og miðast sú tímasetning við að ekki er raunhæft að ætla að nefndinni auðnist að viða að sér gögnum og gera verkefni sínu viðhlítandi skil á skemmri tíma. Verkefnið er vandmeðfarið, ekki síst sá þáttur þess sem lýtur að samspili starfsloka aldurs og lífeyrisgreiðslna. Nefndin hefur þegar hafið störf og fundar nú reglulega.