Sveigjanleg starfslok

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:43:44 (5071)

2001-02-28 14:43:44# 126. lþ. 79.3 fundur 435. mál: #A sveigjanleg starfslok# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:43]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans og þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Ég get tekið heils hugar undir það sem kom fram hjá þeim varðandi sveigjanleg starfslok og mikilvægi þess eins og kom fram hjá hv. þm. Ástu Möller að fólk hefði val um það hvenær það lýkur störfum.

En ég sé það á svörum hæstv. ráðherra að þessi nefnd hefur rétt hafið störf en ætlar greinilega að halda sig vel við efnið enda greinilega næg störf fram undan. Ég vil þó harma það að við þurfum að bíða í tvö ár eftir að nefndin skili tillögum. Þó getur kannski verið að hún ljúki fyrr störfum ef hún heldur áfram að funda eins og hún hefur gert í febrúar, þ.e. tvisvar í mánuði.

Ég fagna því að vinna skuli vera hafin í þessu máli og vonast til þess að við getum komið á sveigjanlegum starfslokum fyrr en síðar. Ef það væri hægt fyrir 2002 þá væri það náttúrlega mikið ánægjuefni. Þetta hefur verið mikið baráttumál bæði eldri borgara og ýmissa annarra. Það hefur verið baráttumál Samfylkingarinnar og þeirra sem standa að henni að koma á sveigjanlegum starfslokum og ég heyri að menn eru sammála um að það sé orðið brýnt verkefni að komið verði að þeim málum. Ég spyr hæstv. forsrh. ef nefndin starfar áfram jafnötullega og hún hefur hafið starfið hvort möguleiki væri að koma þessu á fyrir lok ársins 2002.