Örorkubætur

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:46:16 (5073)

2001-02-28 14:46:16# 126. lþ. 79.4 fundur 354. mál: #A örorkubætur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég ber hér fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. þar sem ég spyr um hve margir öryrkjar misstu bætur á síðasta ári vegna langdvalar á stofnunum.

Eins og núgildandi reglur virka er það þannig að ef elli- eða örorkulífeyrisþegi dvelur á stofnun, t.d. á sjúkrahúsi, lengur en fjóra mánuði á tveimur árum, þá falla elli- og örorkulífeyrisgreiðslurnar frá Tryggingastofnun niður, þannig að hann fær ekki greiðslur þegar fjórir mánuðir eru liðnir samtals. Og þó að þetta séu fjórum sinnum einn mánuður, þá um leið og komið er yfir fjögurra mánaða bilið falla greiðslurnar niður. Þá hafa þeir öryrkjar og ellilífeyrisþegar aðeins framfærslu af vasapeningum, sem nú eru skammarlega lágir, eða þá greiðslur úr lífeyrissjóðum, ef þær eru til staðar. Ef þeir eru á vasapeningunum fá þeir aðeins 18.000 kr., en þessar 18.000 kr. eru mjög tekjutengdar við eigin tekjur, byrja að skerðast ef eigin tekjur eru 3.700 kr. og falla alveg niður ef lífeyrisþeginn er með 31.000 kr. í eigin tekjur.

Þessir lífeyrisþegar halda yfirleitt alltaf heimili annars staðar, þurfa að reka sitt heimili þó að þeir dvelji á sjúkrastofnun tímabundið og eru jafnvel að framfleyta fjölskyldu sem ljóst er að ekki er hægt á 18.000 kr. ef þeir eru á vasapeningunum. Það að þeir missi lífeyrisgreiðslurnar er náttúrlega mjög erfitt fyrir sjúkling sem er á stofnun og þarf að halda fjölskyldunni gangandi. Ég hefði talið, herra forseti, að taka þyrfti sérstaklega á þessum greiðslum því þær geta ekki talist fullnægjandi, þ.e. að skammta fötluðum eða sjúkum lífeyrisþegum sem dæmast til dvalar á stofnun þessar smánargreiðslur.

Sama á við um þessa fjögurra mánaða reglu sem bitnar mjög illa á lífeyrisþegum sem í henni lenda og sérstaklega öryrkjunum, því það er nú yfirleitt fólk á miðjum aldri, fjölskyldufólk, sem er í þeim hópi.

Ég spyr, herra forseti, um örorkulífeyrisþegana sérstaklega. Auðvitað væri einnig áhugavert að fá upplýsingar um það hversu margir ellilífeyrisþegar hafa lent í þessu, en það bíður betri tíma. Auk þess að spyrja hversu margir hafa lent í því að missa bætur vegna fjögurra mánaða reglunnar þá spyr ég hæstv. ráðherra hvort von sé til þess að þeirri reglu verði breytt þannig að hún verði afnumin eða breytt á einhvern mannúðlegri hátt heldur en hún er í dag, þar sem menn nánast missa alla framfærslu sína frá Tryggingastofnun við það að verða veikir og leggjast inn á stofnun.