Örorkubætur

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:53:16 (5075)

2001-02-28 14:53:16# 126. lþ. 79.4 fundur 354. mál: #A örorkubætur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:53]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina og eins svör ráðherra sem fram hafa komið. Það er ánægjulegt að heyra að búið er að lengja tímann úr fjórum mánuðum upp í sex mánuði. En það er rétt að auka þarf sveigjanleikann varðandi þann tíma sem sjúklingar eru inniliggjandi frá því sem nú er þannig að þeir haldi lífeyrisgreiðslum sínum. Meðferð við langvinna sjúkdóma hefur breyst mikið og þá sérstaklega við geðsjúkdóma. Lögð er áhersla á að fólk sé heima sem lengst og sem betur fer er það hægt, fólk vill halda sínu heimili, en vegna þeirra erfiðleika sem eru í húsnæðismálum öryrkja er erfitt fyrir þá að halda húsnæði sínu, halda leiguhúsnæði og því miður eru dæmi þess að geðsjúklingar forðist það að fara inn á stofnun til að missa ekki bætur sínar. Því gleðst ég yfir því ef endurskoða á þessar reglur.