Örorkubætur

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:54:36 (5076)

2001-02-28 14:54:36# 126. lþ. 79.4 fundur 354. mál: #A örorkubætur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:54]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra að ég er sammála því að það á ekki að vera að greiða fólki lífeyrisgreiðslur sem er inni á stofnunum til langdvalar. Aftur á móti hefur mér fundist þessi fjögurra mánaða regla bitna mjög illa á fólki, sérstaklega á öryrkjum, sem eru tímabundið á stofnun og náttúrlega öldruðum líka, sem reka heimili, þetta bitnar illa á þeim. Það er rétt að tryggingaráð hefur veitt undanþágur og þessar reglur hafa verið óbreyttar í langan tíma. Ég kannast ekki við að þetta séu orðnir sex mánuðir. Það hlýtur þá að vera nýtt. Ef þetta eru sex mánuðir þá þarf náttúrlega að kynna það. Ég var á kynningu hjá kynningarfulltrúa Tryggingarstofnunar í síðustu viku þar sem hann talaði um að þetta væru fjórir mánuðir og sama stendur í handbók Tryggingastofnunar ríkisins sem ég fletti iðulega upp í og gerði einmitt í sambandi við þessa fyrirspurn til að athuga hvort eitthvað hefði breyst. Það þarf því að kynna það betur að þetta séu orðnir sex mánuðir. Auðvitað munar strax um tvo mánuði fyrir þessa einstaklinga.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að auka sveigjanleikann og skoða þessar reglur, því þær eru auðvitað barn síns tíma, það er rétt, þær hafa verið svona lengi og það er löngu tímabært að breyta þeim. Stefnan er að reyna að gera fólki kleift að vera heima sem lengst og það er ekki til að auðvelda fólki það að vera með reglur um að menn missi framfærsluna eftir nokkra mánuði á stofnun, á tveggja ára tímabili. Þess vegna fagna því að það eigi að breyta þessu, en vil að lokum, herra forseti, ítreka það að hækka verður vasapeningana. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Er það ekki á döfinni að breyta vasapeningareglunum, hækka greiðslurnar og minnka þessa óheyrilega grimmu skerðingu gagnvart eigin tekjum? En 3.700 kr. þarf til þess að byrja að skerða vasapeninga einstaklings á stofnun sem er náttúrlega eins og menn sjá, herra forseti, ákaflega brött skerðing.