Örorkubætur

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:57:04 (5077)

2001-02-28 14:57:04# 126. lþ. 79.4 fundur 354. mál: #A örorkubætur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:57]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að þetta er aldrei nægilega vel kynnt. Það má kynna þetta enn betur en gert hefur verið og það er mjög mikilvægt að fólk viti af þessum sveigjanleika tryggingaráðs hvað varðar þá einstaklinga sem eru lengi á stofnunum en reka samt sitt eigið heimili. Það eru þeir sem við erum fyrst og fremst að tala um hér og skiptir öllu máli hvað þetta varðar.

Varðandi vasapeningana vil ég minna á það að í fyrra voru vasapeningar hækkaðir verulega. Ef ég man rétt voru þeir hækkaðir um í kringum 30% og það munaði um það. Það má auðvitað alltaf gera betur, en það er stutt síðan við hækkuðum vasapeninga síðast.