Málefni heyrnarskertra

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:58:14 (5078)

2001-02-28 14:58:14# 126. lþ. 79.5 fundur 364. mál: #A málefni heyrnarskertra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Heyrnarskerðing virðist vera að aukast hér á landi. Samhliða hefur eftirspurn eftir þjónustu vegna heyrnarskerðingar aukist verulega á undanförnum árum. Sambærileg þróun hefur einnig átt sér stað á Norðurlöndum. Ástæðurnar eru helstar taldar vera fjölgun aldraðra, betri og smærri tæki, auk þess ungt fólk er nú fremur en áður tilbúið að nota heyrnartæki. Þannig var um 1.000 heyrnartækjum úthlutað á árinu 1996, en fjórum árum seinna hafði þeim fjölgað um 100%, um 2.000 tæki voru afhent í fyrra. Margir heyrnarskertir eru á biðlista eftir heyrnartækjum, ekki síst eldra fólk. Áhrif skertrar heyrnar ná langt út yfir heyrnarskerðinguna sjálfa. Hún veldur minnkaðri virkni í mannlegum samskiptum, sem getur leitt til einangrunar, sem eykst eftir því sem biðtíminn er lengri. Sjálfstraust viðkomandi bíður skaða og hann verður í auknum mæli háður öðrum um túlkun á umhverfinu. Afleiðingin getur orðið hraðari öldrun, minni lífsgæði og aukin hætta á að viðkomandi þurfi fyrr á aðstoð samfélagsins að halda.

Málefni Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands hefur um alllangt skeið verið í umræðunni og komið hefur fram gagnrýni á starfsemi hennar og skipulag. Í frétt Morgunblaðsins sem birtist í júlí á síðasta ári kemur fram að rúmlega 800 manns bíði eftir að fá heyrnartæki og að biðin geti varað allt að einu ári.

Í grein eftir fyrrverandi formann Heyrnarhjálpar, sem birtist í Morgunblaðinu fyrir nokkru, rakti hann verkefni Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar sem henni voru falin við stofnun stöðvarinnar á árinu 1978. Þar kom fram að markmið stöðvarinnar voru að bjóða nýjustu og bestu heyrnartæki á hverjum tíma, þjóna heyrnarskertum á landsbyggðinni með árlegum heimsóknum á helstu staði, að framkvæma reglulegar heyrnarmælingar á öllum hávaðasömum vinnustöðum, að koma á stofn endurhæfingu heyrnarskertra og að halda reglulega námskeið fyrir starfsfólk heilbrigðisstofnana. Í greininni kom fram að þetta hefði stöðin gert til að byrja með og meira til. Hins vegar kom einnig fram að þjónustu stöðvarinnar hefði hrakað verulega á síðustu árum og væri staðan nú sú, að auk langra biðlista eftir tækjum, hefðu þjónustuferðir út á land lagst af, heyrnarmælingar á vinnustöðum væru í algjöru lágmarki og endurhæfingarstöð heyrnarskertra heyrði sögunni til. Mér er kunnugt um að starfsemi stöðvarinnar hefur verið til sérstakrar skoðunar innan heilbrrn. og hefur þess verið vænst að niðurstöður þeirrar athugunar verði grundvöllur frekari ákvarðana um framtíðarskipan heilbrigðisþjónustu við heyrnarskerta.

Af því tilefni spyr ég hæstv. heilbrrh.: Hver er framtíðarskipan í heilbrigðisþjónustu við heyrnarskerta?