Málefni heyrnarskertra

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 15:05:13 (5080)

2001-02-28 15:05:13# 126. lþ. 79.5 fundur 364. mál: #A málefni heyrnarskertra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að komin er hreyfing á þessi mál sem lengi hefur verið beðið eftir og að kom fram í máli hæstv. ráðherra að verið er að endurskoða lög um Heyrnar- og talmeinastöðina og að slíkt frv. verði lagt fram á Alþingi nú í vor. Það er líka mjög ánægjulegt að fá að vita að verið er að meta kostnað við að ná niður biðlistunum því það er það sem skiptir verulegu máli í þessu sambandi.

Nokkrar spurningar vakna við svör hæstv. ráðherra, m.a. hvernig tekið verður á fjárhagsvanda Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar varðandi fortíðina en mér er kunnugt um að rekstrarvandi fyrri ára telur nokkra tugi millj. kr. Annað sem mér finnst líka skipta máli að fá að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra um, er hvort og hvaða hugmyndir hafa verið uppi um að opna fyrir að einkaaðilar geti komið að þessari þjónustu með sölu á heyrnartækjum, með þátttöku almannatryggingakerfisins og með alhliða þjónustu við notendur heyrnartækja. Mér er kunnugt um að Danir hafi farið þá leið og heimilað að einkaaðilar sjái um þessa þjónustu með greiðsluþátttöku úr opinberum sjóðum. Hins vegar er mér líka kunnugt um að verð á heyrnartækjum hjá þessum aðilum hefur verið hærra en boðist hefur hér á landi og í því sambandi verður að gæta þess að gera kröfur til þeirra sem reka slíka þjónustu, bæði varðandi þekkingu og faglega þjónustu og að verð á tækjum fari ekki úr böndunum.

En það sem skiptir máli er að starfsemin sé skilvirk, að biðlistar verði úr sögunni, að þjónustan sé góð og aðgengileg og hún sinni forvarnastarfi og skipuleggi starfsemi sína þannig að hún þjóni öllum landsmönnum, en það hefur komið fram að ferðir út á land lögðust af fyrir tíu, tólf árum og hefur því fólk þurft að sækja þjónustu til Reykjavíkur ef það hefur þörf fyrir hana.

Ég hef líka nefnt það í fyrri ræðu minni að heyrnarskerðing getur haft mikil og erfið áhrif, sé hún ekki meðhöndluð, og ná þau langt út fyrir heyrnarskerðinguna sjálfa.