Biðlistar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 15:17:34 (5084)

2001-02-28 15:17:34# 126. lþ. 79.6 fundur 388. mál: #A biðlistar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að það á að fara að færa þessi mál í betra horf því ástandið er afleitt. Ég er með tvö nýleg dæmi. Annað er um mjög fullorðna konu, 89 ára gamla, og hún tapaði öðru heyrnartækinu sínu. Henni voru gefnar þær upplýsingar að hún yrði að bíða í heilt ár eftir nýju heyrnartæki. Það er verið að ræna þetta fólk heilu ári af ellinni og í lífsgæðum með því að afgreiða ekki heyrnartæki fyrr en eftir árs bið. Þessi kona er algjörlega háð heyrnartækinu fyrir utan það að vera mjög sjónskert.

Hitt dæmið er af fullorðinni konu sem þurfti á tæki að halda og þurfti að bíða í heilt ár. Það endaði með því að ættingjarnir fóru að leita til útlanda og keyptu síðan tæki fyrir hana erlendis fyrir 200 þús. kr.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort fólk sem hefur farið í það að reyna að bjarga þessum málum fyrir horn á þann hátt og borga í útlöndum fleiri hundruð þúsund krónur fyrir tækjakaup fái það bætt af almannafé frá Tryggingastofnun eins og aðrir sem fá afgreitt og bíða í heilt ár eftir þjónustu.