Biðlistar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 15:21:40 (5087)

2001-02-28 15:21:40# 126. lþ. 79.6 fundur 388. mál: #A biðlistar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þau svör sem hafa komið fram í dag vegna þessa málefnis. Mér sýnast þau benda til þess að verið sé að taka á þessum málum og að við megum vænta þess með samstilltu átaki ef ekki vill betur að mál fari í betra horf. Greinilega er mjög mikilvægt að ná fleiri læknum að þjónustunni og menn leiti leiða til þess því auðvitað er afleitt ef fólk, sem býr við heyrnarskerðingu eða dapra heyrn, þarf að bíða allan þann tíma sem hér hefur verið tíundaður hvort heldur er eftir að komast í skoðun eða eftir afhendingu heyrnartækja.

Ég ætla ekki að ræða um málefni þeirra sem eru heyrnarlausir, það er alveg sér málefni og auðvitað sýnu verst og sérstakt vandamál. En það er afskaplega mikilvægt að því verði fylgt eftir sem hæstv. ráðherra gaf hér fyrirheit um, þ.e. að þjónustan út um landið verði byggð upp. Við vitum að mjög víða er aðstaða til að sinna þessari þjónustu og ég hvet hæstv. ráðherra til að fylgja vel eftir þeim hugmyndum sem hún reifaði, að þær komist í framkvæmd. Það er alveg ljóst að öldruðum er að fjölga. Þeir eru ekki eins glaðir og yngra fólk til ferðalaga, ef það má orða það svo, og það er brýnna vegna þjónustu við þá að þetta geti verið sem víðast. Mikilvægt er, herra forseti, að í þessum efnum sem og fleirum getum við boðið upp á góða þjónustu og að hún sé aðgengileg fyrir alla landsmenn.

Herra forseti. Ég met það svo að þessi umræða um málefni Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar hafi verið gagnleg, hér hafi komið fram upplýsingar sem eru mikilvægar fyrir þá sem eiga heyrn sína undir því að þarna takist betur til en verið hefur á undanförnum árum.