Lífeyristryggingar örorku- og ellilífeyrisþega

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 15:43:41 (5097)

2001-02-28 15:43:41# 126. lþ. 79.8 fundur 436. mál: #A lífeyristryggingar örorku- og ellilífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég tala um skerðingu vegna þess að þegar bætur til öryrkjans lækka við það að hann nær 67 ára aldri þá er skerðing á greiðslum til hans frá Tryggingastofnun. Greiðslurnar lækka. Það er skerðing. Auk þess eru skerðingarreglur almannatrygginga mun harðari við lífeyrisþegann þegar hann er orðinn ellilífeyrisþegi og ég fór yfir það hér í máli mínu.

Ég leyfi mér að furða mig á því, herra forseti, að hæstv. ráðherra skuli nánast gefa það í skyn að öryrki þurfi minna þegar hann verður gamall. Að fatlaður einstaklingur þurfi minna til framfærslu þegar hann verður gamall. Ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra sé á þeirri skoðun. Það er yfirleitt þannig að fólk þarf meira þegar það er orðið gamalt og fatlað og sjúkt en ekki að það þurfi að búa við skertar greiðslur. Ég vil líka minna á það að öryrkjar eiga yfirleitt ekki mikinn rétt í lífeyrissjóði. Margir þeirra eiga engan rétt. 43% allra öryrkja eru ekki með neinar greiðslur úr lífeyrissjóðum og hafa því ekkert fyrir sig að leggja nema tryggingabæturnar. Það er ömurlegt að búa við það að þeir lendi í þessum skerðingum við það að ná 67 ára aldri. Ég ætla ekki að fara að ræða það hvað fyrrverandi ráðherra hafði í huga þegar örorkugreiðslurnar voru hækkaðar. Ég efast ekki um að það hafi verið vegna þess að öryrkjarnir þurfa meiri framfærslu. En þeir þurfa það ekkert síður þegar þeir verða gamlir.

Herra forseti. Hæstv. ráðherra svaraði engu um það hvernig hún hygðist leiðrétta þetta óréttlæti. Hún svaraði engu um það hvort hún ætli að láta leiðréttinguna til öryrkjanna ganga yfir til aldraðra. Þurfa þeir að fara í málaferli til þess að ná þessari leiðréttingu fram því það er auðvitað borðleggjandi að sú leiðrétting á að berast til aldraðra líka, því að sömu reglur, sama reglugerð og sömu lög hafa verið látin gilda um tekjutryggingu aldraðra eins og öryrkja. Ég hefði því gjarnan viljað, herra forseti, að hæstv. ráðherra kæmi með svör við þessum spurningum í síðara svari sínu.