Lífeyristryggingar örorku- og ellilífeyrisþega

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 15:45:56 (5098)

2001-02-28 15:45:56# 126. lþ. 79.8 fundur 436. mál: #A lífeyristryggingar örorku- og ellilífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[15:45]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. hefur eitthvað misskilið mig, en það er svo sem ekkert alveg nýtt þannig að ég kippi mér ekki upp við það. Það sem ég var eingöngu að segja áðan var að Öryrkjabandalagið hefur gert okkur grein fyrir því og við höfum unnið með þeim einmitt að því að skoða sérstaklega hvað eigi að gera fyrir þá aðila sem verða öryrkjar mjög ungir, eru með þunga framfærslu og þurfa á meiru að halda meðan þeir eru að byggja sér upp húsnæði o.s.frv. en kannski ellilífeyrisþegi. Það var það sem ég var að reyna að segja. Hv. þm. misskildi mig greinilega en ég vona að hv. þm. skilji núna hvað ég var að tala um.

En þar sem hv. þm. sagðist ekki hafa fengið nein svör (Gripið fram í.) þá sagði ég hv. þm. áðan, og það held ég sé öllum hv. alþm. kunnugt, að þessi mál eru í endurskoðun og þeirri endurskoðun á að ljúka fyrir 15. apríl. Að þeirri endurskoðun koma ellilífeyrisþegar, öryrkjar og þeir aðilar sem hér hafa verið nefndir. Fyrst koma tillögurnar og svo koma ákvarðanir og aðgerðir. Og hv. þm. verður að bíða eins og ég eftir þeim.