Úthlutun sjónvarpsrása á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 18:17:48 (5105)

2001-02-28 18:17:48# 126. lþ. 79.13 fundur 440. mál: #A úthlutun sjónvarpsrása á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[18:17]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt um hversu margar sjónvarpsrásir séu til úthlutunar á höfuðborgarsvæðinu og hve mörgum þeirra hafi ekki verið úthlutað.

Við þessu er ekki einhlítt svar, vegna þess að fjöldi rása sem er til ráðstöfunar fer eftir staðsetningu sjónvarpssendanna, sendiafli og stefnuvirkni loftneta. Sjónvarpsrásir eru fyrir hendi í nokkrum mismunandi hlutum tíðnisviðsins og er þá gjarnan talað um sjónvarpsbönd. Á tíðniböndum 3--5 fer eiginleg útsending sjónvarps til almennings fram. Á 3. bandi eru rásir 5--12. Mögulegt er að nota fjórar rásir á þessu tíðnisviði, sem öllum hefur verið úthlutað. Á 4. og 5. bandi eru númeraðar rásir frá 21 og upp í 69. Þrátt fyrir að númeraðar rásir á tíðnisviði nái frá 5--69, þýðir það ekki að 64 sjónvarpsrásir séu til úthlutunar. Fyrir það fyrsta er ekki hægt að nota grannrásir rásar sem notuð er til útsendingar þar sem sjónvarpstæki geta ekki greint á milli tveggja rása sem eru hlið við hlið. Þá má nefna rás 33 er mikið notuð af afruglurum og rás 36 fyrir tengingu myndbandstækja inn á sjónvarpstæki. Að því leiðir að rásir 32--36 eru ekki til ráðstöfunar fyrir sendingar í loftinu, sem geta truflað þessa notkun.

Þess má enn fremur geta að u.þ.b. 20 rásir á suðvesturhorninu þarf að nota til endurvarpssendinga. Sú þörf kemur til af því að skuggasvæði myndast í landslagi sem aðalsendar sjónvarpsstöðvanna ná ekki til. Rétt er að geta þess að í sumum tilvikum er mögulegt að endurnýta rásir sem notaðar eru til endurvarpssendinga á fleiri en einum stað í senn og þannig hámarka hagkvæmnitíðni notkunar.

Af þessu má sjá að öllum rásum til sjónvarpsútsendinga hefur verið úthlutað, utan rása 67--69, sem hafa verið teknar frá fyrir væntanlegar sendingar stafræns sjónvarps.

Í öðru lagi er spurt um hve margir aðilar bíði eftir úthlutun sjónvarpsrása á höfuðborgarsvæðinu og á suðvesturhorni landsins og um hversu margar rásir sé beðið samtals.

Óafgreiddar umsóknir eru eftirfarandi:

1. Umsókn um fimm rásir fyrir hverfisbundið sjónvarp í Reykjavík.

2. Umsókn um eina rás með aflmiklum sendi sem á að ná yfir allt svæðið.

3. Umsókn um tilraunaleyfi á stafrænu sjónvarpi. Það er því sótt um sex rásir til hefðbundinna sjónvarpssendinga.

Stafrænar útsendingar hafa allt aðra eiginleika en hliðrænar og því er erfitt að tölusetja fjölda sjónvarpsrása í slíku kerfi. Ein rás fyrir hefðbundnar sjónvarpsútsendingar getur rúmað allt að níu stafrænar rásir og tækniþróun virðist vera að fjölga þeim enn frekar.

Í þriðja lagi er spurt um hvaða reglur gildi um úthlutun rása, þ.e. hvaða skilyrði aðilar þurfi að uppfylla, hve mörgum rásum einn aðili geti fengið úthlutað og hve lengi megi halda rásum án þess að nýta þær.

Í fjarskiptalögum eru almenn ákvæði um tíðniúthlutun, en eftirfarandi vinnureglur gilda hjá Póst- og fjarskiptastofnun:

Umsóknir skulu vera skriflegar og tilgreina sendistað, sendiafl og loftnetseiginleika.

Útvarpsleyfi gefið út af útvarpsréttarnefnd verður að liggja fyrir.

Ekki er úthlutað meira en einni rás fyrir hverja dagskrá á sama svæði.

Úthlutun fellur niður hafi rás ekki verið tekin í notkun innan átta mánaða frá úthlutun.

Ef notkun rásar er stöðvuð samfellt í meira en fjóra mánuði fellur úthlutun úr gildi.

Umsóknir eru afgreiddar í þeirri röð sem þær berast.

Reynt er að mæta öllum sanngjörnum óskum um rásir. Í því felst að sjónvarpsstöðvar hafa fengið eina rás fyrir aflmikinn sendi svo hægt sé að tryggja viðunandi styrk á sem stærstum hluta fyrirhugaðs þjónustusvæðis stöðvarinnar og að auki rásir fyrir holufyllingar, svo að þjónustusvæðin séu sem heillegust.

Í fjórða lagi er síðan spurt hvenær sé von á stafrænu kerfi sjónvarps.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur fjallað um þetta og sent greinargerð til samgrn. og hefur hafið undirbúning að stafrænu sjónvarpi og er lagt til af stofnuninni að hafinn verði slíkur undirbúningur nú þegar. Það hafa farið fram viðræður milli mín og menntmrn. um hvernig staðið skuli að stafrænu sjónvarpi. Ég hef því með vísun til 34. gr. útvarpslaga óskað eftir því við menntmrn. og ráðherra að ráðuneyti okkar hefji sem fyrst viðræður um ákveðna þætti þannig að þessi mál skýrist. Meira liggur ekki fyrir og engin ákvörðun um það hvenær tímasetja megi það að hefja stafræna útsendingu.