Úthlutun sjónvarpsrása á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 18:23:23 (5106)

2001-02-28 18:23:23# 126. lþ. 79.13 fundur 440. mál: #A úthlutun sjónvarpsrása á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[18:23]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þessi svör. Ef ég skildi hann rétt þá virðist vanta 12 rásir til þess að uppfylla þörfina, miðað við það sem sótt hefur verið um. Er það nokkru meira en ég hélt sjálfur, en segir mér að þörfin sé greinilega meiri en ég hafði heyrt og augljóst að þarna er eitthvað sem þarf að taka til sérstakrar skoðunar.

Ég lýsi yfir ánægju minni með það að hæstv. ráðherra hafi þegar sett vinnu í gang við að kanna stafrænar útsendingar og að þær verði sem fyrst komnar í gagnið. En við vitum samt að það tekur nokkuð langan tíma þannig að þó svo að fljótlega yrði búið að taka ákvörðun þá er ekki búið að setja upp stafrænt kerfi, hvað þá að skipta um sjónvörp.

Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra geti með einhverju móti sagt mér hvað er hægt að gera fyrir þá aðila sem bíða eftir rásum fram að þeim tíma annað en að bíða eftir því að einhverjar sjónvarpsstöðvar hætti eða segi upp rásum. Ég veit ekki hvort hægt er að svara því, en mér leikur samt forvitni á að vita það og þeim aðilum sem bíða, hvort ráðherrann mun setja einhverja vinnu í gang til þess að finna lausnir. Það er hægt með einhverjum ráðum. Mér er sagt að það sé hægt með einhverjum aðferðum að nýta rásirnar til hliðar, en það er kannski tæknilega erfitt.