Fjöldi íslenskra kaupskipa

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 18:35:21 (5110)

2001-02-28 18:35:21# 126. lþ. 79.14 fundur 451. mál: #A fjöldi íslenskra kaupskipa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[18:35]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir ítarleg svör við þeim spurningum sem ég lagði fram. Það kemur sem sé í ljós að allt sem sagt var um stimpilgjöldin og áhrif þeirra á svo fá skip undir íslenskum fána sem þá voru, þ.e. 1997, hafa þá ekki átt við rök að styðjast vegna þess að á þessum tíma var nákvæmlega sama umhverfi hvað varðar Norðurlandaþjóðirnar þannig að því var ekki til að dreifa að það væri vandamál, enda kom það líka fram hjá forsvarsmönnum íslenskra kaupskipaútgerða þá að þessi mismunun á stimpilgjöldum vegna skráningar annars vegar skipa og hins vegar flugvéla væri ólíðandi, en með breytingum og afnámi stimpilgjalda á kaupskipum mundi kaupskipaflotinn íslenski stækka. Sú hefur ekki orðið reyndin.

Það er alvarlegt mál að aðeins skuli vera tvö skip undir íslenskum fána, þ.e. tvö olíuflutningaskip sem eru hér á ströndinni. Og mér skilst að annað skipið sé á sölu, þannig að innan tíðar stefni í að það verði ekkert einasta skip undir íslenskum fána. Það er ekki langt síðan óskabarn þjóðarinnar, Eimskipafélag Íslands, festi kaup á tveimur 10.000 tonna skipum og látið var í veðri vaka að þetta væru tvö stærstu skip íslenska flotans. Menn eru því ekki að fara með alveg rétt mál í þessu. Það er í rauninni hálfhjákátlegt að svo skuli nú komið fyrir þjóð, eyþjóð sem Íslandi, sem byggir afkomu sína á sjávarútvegi og siglingum, ef við horfum til þess sem gerðist þegar Íslendingar misstu sjálfstæði sitt vegna þess að þeir voru ekki það stöndugir, áttu ekki eigin kaupskipaflota. Ja, illa er komið fyrir þessari þjóð.