Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 11:23:47 (5117)

2001-03-01 11:23:47# 126. lþ. 80.5 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv. 7/2001, Frsm. meiri hluta ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[11:23]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta allshn. í máli nr. 284, um frv. til laga um breyting á lögum um eftirlit með útlendingum.

Nefndin fékk góða gesti á sinn fund þar sem var farið vel yfir þetta mál og einnig bárust nefndinni þó nokkrar umsagnir.

Með frv. þessu er verið að leggja til breytingu á lögum um eftirlit með útlendingum sem byggjast m.a. á fyrirhuguðu samstarfi Íslands á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 1990 um það hvaða ríki beri ábyrgð á umfjöllun um beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju aðildarríkja Evrópusambandsins. Auk frv. hefur nú verið lögð fyrir Alþingi þáltill. þar sem leitað er heimildar þingsins til fullgildingar samnings milli Evrópubandalagsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Samningurinn tekur á stofnanalegum þáttum samstarfs Íslands og Noregs við ESB á sviði Dyflinnarsamningsins. Hann felur í sér að ríkin tvö, Noregur og Ísland, taki yfir og hrindi í framkvæmd öllum ákvæðum Dyflinnarsamningsins utan 16.--22. gr. en þau ákvæði fjalla einvörðungu um hin svokölluðu stofnanalegu atriði er varða samskipti aðildarríkja ESB.

Dyflinnarsamningurinn er prentaður með frv. og fylgir nokkur greinargerð um efni hans og má vísa til þess. Einnig er samningurinn prentaður núna í frv. til laga um útlendinga, en það frv. liggur fyrir í þinginu. Dyflinnarsamningurinn er á milli aðildarríkja ESB. Hann yfirtekur reglur, eins og ég sagði áðan, í Schengen-samningnum um þetta efni. Dyflinnarsamningurinn sem slíkur gildir þannig ekki gagnvart Íslandi og Noregi. Í Brussel-samningnum frá 1999 um aðild þessara ríkja að Schengen-samstarfinu er gert ráð fyrir að samið verði á milli Evrópusambandsins og landanna tveggja, Íslands og Noregs, um ábyrgð á meðferð hælisbeiðna og er slíkt samkomulag forsenda fyrir þátttöku landanna í Schengen-samstarfinu. Þetta kemur fram bæði í greinargerð með því máli sem við erum að ræða um og síðan í hinu svokallaða stóra máli, þ.e. frv. til laga um útlendinga.

Dyflinnarsamningurinn hefur að geyma reglur um hvaða ríki beri ábyrgð á umfjöllun um beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna. Er samningnum ætlað að bæta réttarstöðu þeirra sem sækja um hæli á samningssvæðinu með því að tryggja að umsóknir þeirra hljóti meðferð í einu aðildarríkjanna en verði ekki vísað milli aðildarríkjanna án þess að nokkurt þeirra telji sig bera ábyrgð á meðferð umsóknanna. Í dag væri í rauninni hægt að láta viðkomandi flóttamann hringsóla á milli landa og ekkert ríkjanna bæri ábyrgð á því eða hefði skyldur til þess að taka hælisbeiðni viðkomandi flóttamanns til meðferðar. Ábyrgðin á viðkomandi einstaklingi og beiðni hans samkvæmt Dyflinnarsamningnum verður því hjá því ríki sem ákveður að taka beiðnina til umfjöllunar. Þá er ábyrgðin komin þangað og Dyflinnarsamningurinn kemur ekki í veg fyrir það að hvert aðildarríki geti tekið umsókn til meðferðar ef samþykki umsækjanda liggur fyrir þótt því sé það ekki skylt þannig að hvert aðildarríki getur haft sínar reglur. Það verður alltaf að uppfylla skyldur og þær reglur sem Dyflinnarsamningurinn segir til um, en stjórnvöld í viðkomandi ríki geta tekið umsóknarbeiðnirnar til meðferðar og skoðunar.

Breytingarnar eru eingöngu gerðar til samræmis við meginefni Dyflinnarsamningsins og hreyfa á engan veg við þeim reglum sem gilt hafa um rétt manna til að fá hæli hér á landi. Þau breyta ekki því réttarástandi sem þegar er í gildi. Þá er með frv. bætt við heimild til að miðla til erlendra stjórnvalda þeim upplýsingum um útlendinga sem veita ber samkvæmt samningnum. Það mun vera 15. gr. samningsins, og það tryggir í rauninni ríkari vernd persónuupplýsinga. Gildistaka frv. til laga um breyting á lögum um eftirlit með útlendingum miðast við 25. mars 2001 en eins og við vitum kemur Schengen-samstarfið til með að taka gildi þá. Sú gildistaka er háð því að þetta Schengen-samstarf komi þá til framkvæmda á öllum Norðurlöndunum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra. Hér er í rauninni verið að bæta við rétt þeirra flóttamanna sem leita hælis innan Evrópusambandsins og einnig innan ríkjanna tveggja, Íslands og Noregs, með Dyflinnarsamningnum, þ.e. ef hann verður að lögum, þannig að eitthvert þessara ríkja verður og er skylt að taka málefni viðkomandi flóttamanns til umfjöllunar.

Herra forseti. Meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.