Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 11:38:04 (5119)

2001-03-01 11:38:04# 126. lþ. 80.5 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv. 7/2001, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[11:38]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla því sem kom fram áðan í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að hann hafi ekki fengið viðhlítandi upplýsingar. Þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem eru í allshn. fengu þessar uppýsingar en þeir fengu þær munnlega.

Þegar í desember var vitað að ætlunin var að afgreiða þetta mál út úr nefnd í desember. Ákveðin umfjöllunaratriði komu upp sem okkur þótti rétt að kanna betur og það var gert undir lok þingsins rétt fyrir jól. Síðan var enn frekar fjallað um þetta mál, m.a. að beiðni minni hlutans, í janúar og ætlunin þá að afgreiða það út úr nefnd, en beðið var með það þangað til á þessum umrædda fundi allshn. Það var því í einu og öllu reynt að koma til móts við óskir og þarfir og beiðnir stjórnarandstöðunnar. Einmitt á þeim fundi kom skýrt fram hvað m.a. fyrsta hælisland er. Því var svarað mjög skilmerkilega á fundi allshn.

Í rauninni má segja að reglan um fyrsta griðland sé almennt viðurkennd í þeim skilningi að þegar flóttamaður hefur dvalist í einu öruggu ríki getur hann ekki farið þaðan til annars ríkis og óskað eftir hæli þar. En vandamál er einmitt að ákveða hvaða ríki bjóða upp á nógu góða meðferð hælisbeiðenda til að þau geti heitið örugg. Hér á Íslandi höfum við miðað við að Vestur-Evrópuríkin væru örugg. Samkvæmt Schengen-samningnum er í rauninni fyrsta land sem viðkomandi flóttamaður lendir í fyrsta hælisland. En það er ekki þar með sagt að það sé einhver sjálfvirkni. Við Íslendingar getum tekið frumkvæðið að því og tekið mál þess til meðferðar á eigin forsendum. Enginn þarf að segja okkur að við þurfum að skikka viðkomandi til baka þó að við séum annað hælisland eða þriðja. En það er alveg skýrt og því var vel og skilmerkilega svarað á fundi allshn. hvað til að mynda er fyrsta hælisland.