Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 11:56:20 (5127)

2001-03-01 11:56:20# 126. lþ. 80.5 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv. 7/2001, GÖ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[11:56]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að benda hv. þm. Ástu Möller á þýðingu ábendinga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það sem þeir eru að benda á er einmitt um þetta örugga þriðja ríki. En þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Þar sem eru ekki fyrir hendi nein sameiginleg viðmið um skilgreininguna á öruggu þriðja ríki leggur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna til að aðildarríkin setji sér eftirfarandi reglur um beitingu 3. gr. 5. mgr. Dyflinnarsamningsins.`` --- Og þar kemur fram: --- ,,Þegar færa á hælisleitanda yfir á aðildarríki EB til þriðja ríkis á grundvelli 3. gr. 5. mgr., ætti ríkið sem flytur hann úr landi að leita samþykkis þriðja ríkisins áður um að það muni leyfa komu hælisleitanda til ríkisins, taka hælisumsóknina til efnismeðferðar og veita hælisleitandanum raunhæfa vernd svo lengi sem þörf er á.``

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna er í raun og veru að gagnrýna það sem við viljum hafa aðeins skýrar hjá okkur og ég vil meina að við hefðum alveg getað gert það og það er kannski það sem ég sakna. En þá er líka greinilegur stuðningur við það þegar við förum núna í stóra útlendingafrv. að við setjum slíkt þar inn, þannig að við nýtum okkur í rauninni gagnrýni Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna til að við séum algerlega öruggu megin í lífinu hvað varðar þennan hóp og þurfum ekki að láta hann pendla á milli ríkja.