Samvinnufélög (rekstrarumgjörð)

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 12:58:29 (5133)

2001-03-01 12:58:29# 126. lþ. 80.8 fundur 448. mál: #A samvinnufélög (rekstrarumgjörð)# frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[12:58]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, með síðari breytingum, sem er á þskj. 716, mál 448.

Samhliða þessu frv. hef ég mælt fyrir öðru frv. um breytingu á lögum um samvinnufélög, sem snertir innlánsdeildir félaganna. Þá mun fjmrh. í tengslum við frv. þetta mæla fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Með frv., sem er endurflutt frá síðasta þingi með vissum breytingum, eru í stuttu máli gerðar nokkrar breytingar á ákvæðum sem snerta rekstrarumgjörð samvinnufélaga og er markmið þess að auka möguleika samvinnufélaga á að bregðast við breyttum aðstæðum. Meginefni frv. er að heimila hækkun séreignarhluta félagsaðila í A-deild stofnsjóðs, til þess að stofnsjóður samvinnufélags endurspegli betur eigið fé félagsins og jafnframt að heimila lækkun A- eða B-deildar stofnsjóðs samvinnufélags, þannig að opnað verði fyrir möguleika til að greiða út fé. Einnig er í frv. kveðið á um breytingu á samvinnufélagi í hlutafélag og þá hvernig ákvörðun um breytinguna skuli taka.

Svo sem ég greindi frá, hafa verið gerðar vissar breytingar á frv. frá því sem var á síðasta þingi. Má í því sambandi nefna að breytt er ákvæðum um samþykki eigenda hlutafjár í B-deild vegna ákvarðana um hækkun séreignarhluta í A-deild stofnsjóðs, lækkun A- og B-deilda stofnsjóðs og breytingu samvinnufélags í hlutafélag. Eru í þessu frv. gerðar ívið strangari kröfur til þess að hluthafar í B-deild geti staðið gegn þessum ákvörðunum félagsfunda í A-deild um hækkun eða lækkun stofnsjóðs og breytingu samvinnufélagsins í hlutafélag. Auk þess hefur verið bætt við í 3. gr. frumvarpsins heimild til handa samvinnufélögum til að kveða á um í samþykktum að útborgun á séreignarhlutum samkvæmt 1.--3. mgr. 38. gr. laganna um samvinnufélög skuli afhent félagsmönnum með samvinnuhlutabréfum í B-deild stofnsjóðs félagsins eða skuldabréfum en á þetta gæti t.d. reynt ef félagsmaður hættir þátttöku vegna aldurs. Undirstrika skal að þetta er heimildarákvæði.

Að undanförnu hefur farið fram mikil umræða á vettvangi samvinnufélaga um skipulagsmál og framtíð félaganna. Þróun byggðar og atvinnurekstrar hefur sniðið samvinnufélögum þrengri stakk en áður og heimildir samvinnufélaga til að afla fjármagns á markaði með útgáfu B-deildarhluta hefur ekki reynst samvinnufélögunum eins vel og ætlunin var. Nokkur samvinnufélög hafa því þegar ákveðið að stofna hlutafélög um einstaka þætti í rekstri sínum til að bregðast við breyttum aðstæðum. Nauðsynlegt hefur verið talið að færa samvinnufélögum auknar heimildir í lögum til að bregðast við þessum breyttu aðstæðum og auka samkeppnishæfni sína.

Var skipuð nefnd til að gera tillögur um breytingar á ýmsum ákvæðum samvinnufélagalaganna varðandi rekstrarumgjörð félaganna. Jafnframt var tækifærið notað til að bæta við ákvæði um möguleika til slita á samvinnufélagi vegna vanskila á sendingu ársreikninga til samræmis við hlutafélagalöggjöf, leiðrétta millivísanir í lagagreinum og taka upp aðgreiningu í endurskoðendur og skoðunarmenn.

Til að byggja upp eigendavitund í samvinnufélögum er í frv. gert ráð fyrir heimildum til handa félögunum til að gera breytingar á stofnsjóði til hækkunar og lækkunar en jafnframt þarf að gera breytingar á skattalögum til að gera þetta kleift, m.a. þannig að hækkun séreignarhluta félagsaðila teljist ekki til skattskyldra tekna. Benda má á í þessu sambandi að í hlutafélagalöggjöf eru svipuð ákvæði um heimildir til hækkunar og lækkunar hlutafjár. Í frv. þessu er jafnframt gert ráð fyrir því, eins og áður segir, að unnt sé að breyta samvinnufélagi í hlutafélag og eru sett ákvæði til að auðvelda slíkt. Þótt samvinnufélagi yrði breytt í hlutafélag getur það varðveitt ýmis einkenni samvinnufélags, t.d. ákvæði samþykkta um tilgang félags. Það er í valdi samvinnufélaga hvort þau nýta sér heimildir samkvæmt ákvæðum frv. ef þau yrðu að lögum, þ.e. í fyrsta lagi heimild til lækkunar fjár sem nokkuð hefur verið nýtt í hlutafélögum og einkahlutafélögum ef ekki hefur verið talin þörf á eins miklu eigin fé og til er vegna rekstrar. Í öðru lagi heimild til hækkunar fjár, t.d. vegna aukinna umsvifa. Og í þriðja lagi heimild til að breyta samvinnufélagi í hlutafélag. Allt yrði þetta á valdi samvinnufélaganna. Reynt er að tryggja réttindi þeirra sem eru andvígir breytingu samvinnufélaga í hlutafélag. Þessu er öllu nánar lýst í frv.

Að því er varðar einstakar greinar frv. vísa ég til framsöguræðu minnar á síðasta þingi.

Í kostnaðarumsögn kemur fram að ekki verður séð að frv. þetta hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.

Hæstv. forseti. Ég óska þess að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.