Staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 13:51:43 (5136)

2001-03-01 13:51:43# 126. lþ. 80.94 fundur 346#B staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka frummælanda fyrir þessa umræðu um almenningsþjónustu. Hér ættu auðvitað að vera viðstaddir flestir hæstv. ráðherrar ríkisstjórnar til að fjalla um þessi mál en eins og sjá má eru hér aðeins tveir ráðherrar.

Það er í raun grátlegt að umræða um vanda landsbyggðar og dreifbýlis skuli þurfa að vera oft á hverjum vetri á þessum vettvangi til áminningar fyrir ríkisvaldið. Það á að vera öllum ljóst og ekki síst hæstv. ráðherrum að búseta í þéttbýli á landsbyggðinni og reyndar einnig í sveitum er mjög háð þeirri almenningsþjónustu sem stendur íbúunum til boða. Skerðingar á þjónustu verða allar til þess að íbúar gera samanburð á því hvað stendur til boða annars staðar á því sem þeir hafa og því sem þeim býðst.

Skólar, aðgengi að læknisþjónustu, bönkum, póst- og símaþjónustu, sýslumannsembættum, samgönguþjónustu, prestþjónustu, verslun til aðdráttar fyrir heimilin, þetta eru grunnatriðin sem málið snýst um. Öll skerðing varðandi þessa þætti er byggðahamlandi. Krafan sem stendur á ríkisvaldið er að fyrir hvert starf sem ríkið á aðild að að lagt er niður komi að tilhlutan ríkisins annað starf sem skili sambærilegum tekjum til einstaklingsins og sveitarfélagsins sem í hlut á.

Herra forseti. Ég leggst ekki gegn hagræðingu. En ef hún felst í því að færa störf, og þá einkum kvennastörf, frá landsbyggð að höfuðborgarsvæði þá er ég á móti.

Virðulegur forseti. Sú spurning sem ég tel að hæstv. byggðamálaráðherra verði að svara við þessa umræðu er eftirfarandi:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir sértækum aðgerðum til varnar landsbyggð? Ef ekki þá er núverandi byggðastefna eyðibyggðastefna.