Staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 14:09:01 (5144)

2001-03-01 14:09:01# 126. lþ. 80.94 fundur 346#B staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[14:09]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er hreyft afar margslungnu máli. Í kjölfar mikillar fólksfækkunar í ýmsum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni má segja að forsendur fyrir þjónustu hafi að mörgu leyti brostið. Það hefur með öðrum orðum verið erfiðara að veita þá þjónustu sem þörf er á. Ég vil taka það fram að þetta á jafnt við um einkaþjónustu og opinbera þjónustu. Þetta sést e.t.v. best í verslunarrekstri, eftir því sem viðskiptavinum fækkar þá gengur verr að reka verslunina og að því kemur að einstakar verlanir fara undir þau mörk sem verslunareigendur telja sér fært að standa á og verslunum er lokað eins og dæmi sanna.

Hið sama gildir í rauninni um skóla. Eftir því sem nemendum fækkar verður erfiðara að veita þjónustu svo sem valgreinar og ekki síst það að kennurum fækkar og fátt er verra fyrir sérfræðinga en að vera í faglegri einangrun. Ofan á þetta má síðan bæta tæknivæðingu sem hefur m.a. leitt til þess að störfum hefur fækkað. Hér er með öðrum orðum um mjög margslungið mál að ræða sem verður alls ekki leyst með einföldum hætti þó að sumir hv. þm. tali þannig.

Ég fagna þess vegna öllum tilraunum sem gerðar eru til að halda uppi þjónustustigi, eins og hér hefur verið nefnt með samruna einstakra eininga til þess að styrkja þjónustuna og halda henni. Ég fagna líka þeim hugmyndum sem ræddar hafa verið um að stækka þjónustusvæði með samstarfi opinberra aðila og einkageirans. Hvað hið opinbera varðar hlýtur að vera horft til skattlagningar á vörur og á tekjur einstaklinga og fyrirtækja, á styrki byggða, á byggðastefnu með skilgreindri lágmarksþjónustu, á samruna opinberra stofnana til þess að ná fram hagræðingu en halda í þjónustu og með samvinnu hins opinbera og einkageirans. Markmiðið hlýtur að vera að styrkja og efla þjónustustigið, halda því í byggð og það hljóta menn að gera með bjartsýni en ekki þeim bölmóði sem því miður heyrist of oft.