Staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 14:13:09 (5146)

2001-03-01 14:13:09# 126. lþ. 80.94 fundur 346#B staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[14:13]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil halda því fram að almennt sé þjónusta á landsbyggðinni nokkuð góð miðað við fólksfæð. Það eru undantekningar, það eru ákveðin svæði sem eru veik en víða á landsbyggðinni er þjónusta góð. Við skulum hafa það í huga t.d. í sambandi við heilsugæsluna að hún var byggð upp á landsbyggðinni áður en hún var byggð upp hér á suðvesturhorninu. Um það var tekin pólitísk ákvörðun og þess vegna var það gert.

Ég undrast það ekki að hv. þm. vinstri grænna komi hér upp og hafi nokkuð hátt en hafi líka fá úrræði því að það einkennir mjög þann flokk. Ég var t.d. á fundi í gær á Snæfellsnesi og þar töluðu margir fundarmenn um það hve þeim leiddist þessi neikvæða umræða um landsbyggðina sem væri í fjölmiðlum og á Alþingi. Ég held að sumir sem koma hér í stól á hv. Alþingi séu alls ekki alveg með á nótunum því að það er víða blómlegt líf á landsbyggðinni. Ég sé að hv. þm. Ögmundur Jónasson kinkar kolli. Hann fer kannski stundum út á land. Ég vona það.

En vegna þess að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór hér mikinn eins og oft áður þá vil ég ítreka að ég talaði um kaupfélögin í ræðu minni áðan og hversu gífurlega stórt hlutverk kaupfélögin höfðu áður, en nú eru þau orðin veik. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er einn af fáum Íslendingum sem lagði mikið á sig til þess að segja sig úr kaupfélagi. Það var nú framlag hans til kaupfélaganna, til samvinnuhreyfingarinnar og til þeirra atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni sem þó héldu uppi þjónustu. Það er því ekki alltaf sem maður botnar algjörlega í hlutunum. (Gripið fram í.) Já, nú veit ég að hann er hissa að ég skuli muna eftir þessu en það er nú sumt sem maður getur ekki gleymt.

Í sambandi við spurningu Kristjáns L. Möllers um hvenær rædd yrði framkvæmd byggðaáætlunar, þá sagði ég í ræðu minni áðan að það yrði á næstu dögum. Hún er um það bil að koma til þingsins.