Samvinnufélög (rekstrarumgjörð)

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 14:56:19 (5154)

2001-03-01 14:56:19# 126. lþ. 80.8 fundur 448. mál: #A samvinnufélög (rekstrarumgjörð)# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[14:56]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að hv. þm. Jóni Kristjánssyni er þetta tilfinningamál og ég skil það vel. Vissulega er það rétt að undantekningar fundust frá þeirri reglu að kaupfélög í landinu og samvinnuhreyfingin væri öll undir stjórn framsóknarmanna og rekin nánast eins og deild í flokknum. Nafntogaðasta undantekningin var auðvitað KRON. Það er alveg rétt. Þar er stórmerk saga, þær sviptingar sem urðu í kringum það, en svo komst þar á vopnahlé og ágætt samstarf, ég hugsa að það sé rétt hjá hv. þm. í grófum dráttum.

Ég vitnaði m.a. til reynslu minnar af heimaslóðum, víðar úr kjördæmi mínu og reyndar af landsbyggðinni þar sem ég þekki ágætlega til þessara hluta, oft í gegnum róttækt fólk. Það hafði þá sögu að segja að það vildi gjarnan styðja þessa hreyfingu, því fannst það liggja sér nærri og vera náskylt hugsuninni um jafnrétti og bræðralag en varð oftar en ekki útilokað frá völdum eða áhrifum. Stundum var tekinn einn einstaklingur sem hafði aðrar stjórnmálaskoðanir svo vitað var, þ.e. var ekki framsóknarmaður. Sá var hafður sem sýnishorn inni í stjórninni sem sönnun þess að þar væru ekki bara framsóknarmenn. Þetta var stundum gert. Ég þekki dæmi um þetta bæði úr litlum kaupfélögum og stórum. Auðvitað var þetta mismunandi, það er eins og gengur, en því miður var þetta svona.

Ég endurtek það sem ég sagði. Ég tel að þetta hafi verið hluti af ógæfu samvinnuhreyfingarinnar og kaupfélaganna undir lokin. Það var minni bakstuðningur og víða verra andrúmsloft bak við þessi fyrirtæki en þurft hefði að vera. Forsvarsmenn þeirra hefðu þurft meiri víðsýni til að bera og átt að gæta þess að hafa fulltrúa ólíkra stjórnmálaskoðana og viðhorfa með sér í að styðja og stýra þessum fyrirtækjum.