Samvinnufélög (rekstrarumgjörð)

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 15:06:58 (5158)

2001-03-01 15:06:58# 126. lþ. 80.8 fundur 448. mál: #A samvinnufélög (rekstrarumgjörð)# frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að gera síðustu ræðu að umtalsefni enda kom hún hvergi að því málefni sem hér er á dagskrá. En almennt út af þeim frumvörpum sem hér eru til umfjöllunar og þá sérstaklega í sambandi við rekstrarumhverfi samvinnufélaga, þá get ég í sjálfu sér tekið undir það að frv. sem þetta hefði þurft að koma fram fyrr og þá hefði kannski verið hægt að bjarga einhverju af því sem nú er því miður ekki lengur til staðar og er ég að tala um kaupfélög sem ekki eru lengur í rekstri. En þó er það þannig að meira en tíu ár eru síðan gerðar voru breytingar á lögum um samvinnufélög sem gerðu þeim kleift að taka upp svonefnd B-deildarskírteini sem menn trúðu á þeim tíma að mundi geta breytt miklu og gert þeim mögulegt að ná inn eigin fé í félögin. Hins vegar reyndust þau úrræði ekki nægilega góð til að breyta nógu miklu. Nú er sem sagt lagt fram frv. til þess að gera kaupfélögunum mögulegt og heimilt að breyta rekstri sínum í hlutafélagarekstur og kannski er það þannig að dálítinn tíma þarf til þess að fá fólk til að átta sig á þeim breytingum sem orðið hafa í samfélaginu og því rekstrarumhverfi sem þessi félög eru rekin í.

Ég þakka það að mér finnst að þeir hv. þm. sem hér hafa talað taki undir það að þetta frv. gæti orðið til bóta og vonandi á það þá greiða leið í gegnum þingið.

Um þær fyrirspurnir sem komu fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, þá skal ég segja henni það að ég hafði ekki heyrt af þessum athugasemdum frá ríkisskattstjóraembættinu. Ég tel að ástæða sé til að fara yfir þetta mál í nefnd og tek undir það með henni að kannski eiga þessar athugasemdir meira erindi við hæstv. fjmrh. en frv. það sem hér er til umræðu var að sjálfsögðu unnið í samvinnu við hæstv. fjmrh. og ríkisskattstjóraembættið kom einnig þar að málum. Ég vonast nú til að úr þessu leysist og ekki sé hætta á því að það sem lagt er til í frv. sé á nokkurn hátt almennt á skjön við lög og reglur sem varða hlutafélög því að samkvæmt upplýsingum mínum er þetta mjög sambærilegt.

Hv. þm. nefndi einnig að óljóst væri um umfang sem kæmi í framhaldi af þessum breytingum en eins og staðan er í dag er ekki hægt að segja til um það hversu mörg samvinnufélög munu notfæra sér þann möguleika sem frv. kveður á um og þess vegna er óljóst hversu miklar breytingar það hefur í raun í för með sér ef að lögum verður.

Þetta er það sem ég vildi segja á þessu stigi. Ég tel ekki ástæðu til að fara náið ofan í þær athugasemdir sem komu fram hjá ríkisskattstjóra á síðasta þingi en legg áherslu á að málið verði skoðað vel í nefnd og trúi því að þær breytingar sem gert er ráð fyrir í frv. séu í samræmi við það sem kveðið er á um í lögunum um hlutafélög.