Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 15:04:16 (5171)

2001-03-05 15:04:16# 126. lþ. 81.6 fundur 481. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (samvinnufélög) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frv. þetta er lagt fram í tengslum við frv. viðskrh. um breytingu á lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, er lýtur að rekstrarumgjörð samvinnufélaga.

Eins og rakið er í greinargerð með frv. um breytingar á samvinnufélagalögunum hafa verið erfiðleikar í rekstrarumhverfi samvinnufélaganna á undanförnum árum. Kemur þar margt til en ljóst er að sá rammi sem samvinnufélögunum hefur verið gert að starfa eftir hefur takmarkað möguleika þeirra til að bregðast við breyttum aðstæðum á liðnum árum. Þannig hafa samvinnufélög ekki haft aðstöðu til að afla sér nýs áhættufjármagns auk þess sem stofnsjóðir félaganna hafa rýrnað fyrir áhrif verðbólgu um langt árabil þannig að varla er lengur um að ræða raunverulegt eða eiginlegt eigendafjármagn í samvinnufélögunum.

Markmiðið með því frv. sem hér er mælt fyrir ásamt frv. viðskrh. er að gera samvinnufélögum kleift að bregðast við þeim vanda sem þau standa frammi fyrir og einfalda þeim að breyta rekstrarformi sínu og færa félögunum þannig auknar heimildir til þess að bregðast við breyttum aðstæðum í rekstrarumhverfi og auka samkeppnishæfni þeirra.

Í frv. þessu eru lagðar til breytingar á tekjuskattslögunum sem fela m.a. í sér að hlutabréf sem félagsaðilar A-deildar eða eigendur samvinnuhlutabréfa í B-deild fá afhent við breytingu samvinnufélags í hlutafélag sem gagngjald fyrir séreignarhlut stofnsjóðs eða samvinnuhlutabréf skulu ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur. Einnig er kveðið á um að hækkun séreignarhluta félagsaðila A-deildar stofnsjóðs samvinnufélags og afhending hækkunarinnar í formi hlutabréfa í B-deild stofnsjóðs teljist ekki til skattskyldra tekna.

Þá er kveðið á um að við ákvörðun söluhagnaðar við endursölu hlutabréfanna skuli kaupverð, þ.e. stofnverð hlutabréfa sem aðili hefur eignast við sérstætt endurmat A-deildar, ákvarðast sem jöfn fjárhæð hækkunar séreignarsjóðshluta A-deildar yfirfærðs stofnsjóðs. Söluverð afhentra hlutabréfa samkvæmt endurmati kemur hins vegar að fullu til skattlagningar án frádráttar stofnverðs.

Rétt er að árétta að með umræddum frumvörpum er verið að leita leiða til að breyta rekstrarumhverfi samvinnufélaga í landinu. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frv. um rekstrarumgerðina er einn vandi samvinnufélaga að ekki hefur tekist að viðhalda eða byggja upp eigendavitund meðal félagsmanna sem af mörgum er talinn vera nauðsynlegur bakhjarl í rekstri fyrirtækja. Aðeins brot af eigin fé félaganna er beint tengt félagsmönnum og þeir hafa ekki beina hagsmuni af arði eða batnandi afkomu fyrirtækjanna. Hér er verið að leita leiða til að ná fram sanngjarnri leiðréttingu á fjárhagslegri aðild félagsmanna að viðkomandi félagi. Það er lagt í hendur félagsaðilanna sjálfra að samþykkja eða synja rökstuddu áliti í sérfræðiskýrslu á hækkun séreignarhluta félagsaðila og skiptihlutfall á milli félagsmanna og hluthafa, svo og innbyrðis á milli félaganna.

Rétt er að geta þess að ákvæði um skattfrelsi endurmats séreignarsjóða samvinnufélaganna og afhending þess til félagsaðila í formi hlutabréfa eru hliðstæð ákvæðum er varða hlutafélög og úthlutun skattfrjálsra jöfnunarhlutabréfa. Annars vegar er um að ræða að úthlutunin er skattfrjáls í hendi hluthafa og myndar stofnverð við endursölu þeirra, þ.e. jöfnunarverðmæti og hins vegar er um að ræða heimild til úthlutunar jöfnunarhlutabréfa sem ekkert stofnverð hafa við söluna. Af því leiðir að heildarsöluverð bréfanna skattleggst við endursölu þeirra. Því má segja að verið sé að fresta að hluta til skattlagningu og hún eigi sér ekki stað fyrr en eiginlegt verð kemur fram við endursölu hlutabréfanna.

Ég hef í stuttu máli, herra forseti, gert grein fyrir efnisatriðum þessa frv. sem hér er endurflutt frá síðasta þingi og er þar af leiðandi þingheimi kunnugt, einkum nefndarmönnum í efh.- og viðskn. en ég legg til að frv. þessu verði vísað þangað og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.