Umgengni um nytjastofna sjávar

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 15:57:02 (5185)

2001-03-05 15:57:02# 126. lþ. 81.7 fundur 504. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (veiðar umfram aflaheimildir) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[15:57]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Þegar þingið ræddi fyrir jólin frv. um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar þá kom það fram við umfjöllun sjútvn. að huga þyrfti að ýmsum öðrum þáttum sem lytu sérstaklega að framkvæmd málsins. Í umræðu nefndarinnar og samræðum við fulltrúa sjútvrn. og Fiskistofu komu upp ýmis tilvik sem sýndu fram á að eins og lögin voru úr garði gerð settu þau eftirlitsaðilunum mjög miklar skorður og gerðu þeim mjög erfitt fyrir að bregðast við á grundvelli þess sem menn vissu kannski sanngjarnast í hjarta sínu. Það komu upp tilvik eins og þau að mönnum urðu á mistök við að færa aflaheimildir milli skipa sinna og ýmislegt annað í þeim dúr. Lögin voru svo afdráttarlaust orðuð að það var niðurstaða eftirlitsaðilanna að ekki væri hægt að bregðast við þessu og gefa mönnum umþóttunartíma til að lagfæra stöðu sína vegna þess að lögin leyfðu það hreinlega ekki.

Í nál., sem sjútvn. sendi frá sér þann 12. desember sl., var einmitt vikið að þessu og segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Nefndin ræddi einnig ýmis atriði er snúa almennt að framkvæmd veiðieftirlitsins. Ekki síst þau er lúta að tímabundinni sviptingu veiðileyfa vegna brota er augljóslega stafa af gáleysi eða mannlegum mistökum. Af þeim sökum hefur sjávarútvegsráðherra hafið vinnu við endurskoðun þessara þátta sem framkvæmd verður í samráði við hagsmunaaðila. Leggur nefndin áherslu á að því starfi verði hraðað.``

Það frv. sem er til umræðu er í raun og veru viðbrögð við þeim umræðum sem áttu sér stað á haustdögum og ber að þakka hæstv. sjútvrh. skjót viðbrögð í þeim efnum. Ég hygg að með þessu frv., eins og fram hefur komið í máli m.a. hv. 4. þm. Vestf., sé verið að gera löggjöfina manneskjulegri á allan hátt að því leytinu að búið er til þetta svigrúm að útgerð og skipstjóri hafa möguleika að bregðast eðlilega við og leiðrétta stöðu sína verði þeim á í messunni. Að öðru leyti er ekki verið að víkja sér frá því að halda uppi heilbrigðu eftirliti eða öflugu eftirliti með því að menn gangi vel um nytjastofna sjávar. Ég held að almennt séu menn sammála um það. Hitt er annað mál að menn greinir auðvitað á um það í stórum dráttum hvernig tiltekin gerð fiskveiðistjórnar þjóni því markmiði að ganga vel um nytjastofna sjávar. Það er stór umræða sem er í sjálfu sér ástæðulaust að efna til hérna af þessu tilefni. En aðalatriðið er það, finnst mér, að með þessu frv. er verið að opna á þann möguleika að eftirlitsaðilinn geti brugðist við og leiðrétt þegar um er að ræða augljós mannleg mistök eða gáleysi sem geta alltaf komið fyrir við þessar aðstæður þannig að ekki sé beinlínis verið að refsa þeim sem vilja hlíta lögunum, vilja ganga vel um nytjastofnana en hafa einhverra hluta vegna ekki haft þær heimildir sem stafar af tímabundnum ástæðum.

Virðulegi forseti. Engin ástæða er til þess að fara í mörgum orðum um þetta mál. Ég hygg að um frv. geti orðið býsna góð samstaða vegna þess að efni þess er nátengt þeirri ábendingu sem sjútvn. kom með inn í umræðuna í hausti og hæstv. sjútvrh. hafði raunar tekið upp að fara í þessa endurskoðun. Ég vænti þess að um þetta mál geti tekist prýðileg samstaða í nefndinni og meðal hagsmunaaðila sem lesa má í grg. þessa frv. að hafi verið hafðir með í ráðum þegar málið var undirbúið.