Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 16:55:42 (5191)

2001-03-05 16:55:42# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[16:55]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um að það er undarlegt hvað fáir þingmenn, ég tala nú ekki um formenn þingflokka og hæstv. ráðherrar eru viðstaddir þessa umræðu sem ég fullyrði að sé eitt aðgerðamesta frv. sem lagt hefur verið fram á Alþingi um fiskveiðar síðan 1983. Hér er um að ræða aðgerðamesta frv. um stjórn fiskveiða á Íslandi síðan 1983. Það er ótrúlegt að hæstv. utanrrh., sem er stundum nefndur faðir kvótans eða kvótapabbi, skuli ekki vera hér. Það er ótrúlegt að hæstv. forsrh. skuli ekki vera hér. Vissulega höfum við svaramann málaflokksins, hæstv. sjútvrh., Árna M. Mathiesen, og sá sem hér stendur virðir það.

Ég spyr einnig, virðulegi forseti: Hvar eru þeir hv. þm. stjórnarinnar, sem hafa verið á fundum með sjómönnum og hafa gagnrýnt kerfið en sjást svo ekki hér? Það er með ólíkindum að aðeins u.þ.b. 25% þingmanna skuli vera viðstaddir til að ræða þetta mál þar sem vitað er að 75% þjóðarinnar er ósátt við fiskveiðistjórnarkerfið. Það er með ólíkindum, virðulegi forseti.

Í því frv. sem við erum að ræða er fullrar varúðar gætt. Um er að ræða langan aðlögunartíma til breytinga á núverandi kerfi. Þess er sérlega gætt að þeir sem vinna við útgerð og eru í útgerð haldi möguleikum sínum og eigi möguleika til að reka útgerð sína á hagkvæman máta. Ég tel að útgerðarmynstur eins og er nú t.d. hjá mörgum stórútgerðunum, sem byggist á því að veiðiskip eru bundin við bryggju hálft árið og verið er að leigja af þeim aflaheimildirnar til þeirra sem eru að sækja afla t.d. á smábátum sem eru heimildarlausir, sé gjörsamlega óviðunandi og því verði að breyta. Ég tel að það sé gjörsamlega óviðunandi að byggðum sem hafa byggt afkomu sína á fiskvinnslu sé hreinlega mismunað í kerfinu þannig að þær eigi áframhaldandi aðgang að fiskveiðunum.

Það úrlausnarefni sem við erum að fjalla um hefur verið í umræðu síðan 1983 á okkar virðulega Alþingi, lagfæring á framkvæmd á stjórn fiskveiða.

Virðulegi forseti. Því miður hefur lítið gerst. Það er staðreynd. Örfáir aðilar í landinu geta stjórnað því að ekki hafa náðst fram breytingar á því kerfi sem við erum að fjalla um. Þess vegna leggur Samfylkingin þetta frv. fram núna og þess vegna er lögð svona mikil vinna í frv. að maður vonast til að núna verði einhver aðgerð.

[17:00]

Hvar sjást þess merki, virðulegur forseti, að lögin um stjórn fiskveiða séu í endurskoðun? Hefur kvótabrask minnkað? Nei, það hefur ekki minnkað. Það hefur aukist. Kvótabrask hefur sennilega aldrei verið meira en á liðnu kvótaári. Það er að færast í vöxt, sem ég nefndi hér áðan, að fiskiskip veiði aðeins sinn 50% kvóta eins og lög mæla fyrir og síðan séu skipin bundin við bryggju, mannskapurinn rekinn í land meðan útgerðarmaðurinn braskar með veiðiheimildina sem eftir er. Þetta er skelfileg niðurstaða. Það er skelfilegt að stjórnarliðar sem ráða hér öllu skuli láta knýja sig til þess að standa að slíku.

Hverjar eru afleiðingarnar af þessu? Afleiðingarnar hafa verið þær að tekjur sjómanna á þessum skipum hafa minnkað. Ef þeir ekki makka rétt í sumum tilvikum þá kemur hinn armurinn að þessu. Þá eru sjómenn neyddir til kvótakaupa. Menn eru neyddir til að taka þátt í að kaupa kvóta. Það má líka segja að ef menn eru með eitthvert kjaftæði um slíkt þá séu þeir bara hreinlega reknir og pokanum hent á eftir þeim í land.

Það má minna á að hæstv. utanrrh., sem gjarnan eignar sér drjúgan heiður af stjórnkerfi fiskveiða á Íslandi, sagði í ræðu á fundi framsóknarmanna þann 11. október 1999 á Hótel Borg að hann heyrði mikla undiröldu í þjóðfélaginu út af fiskveiðistjórninni. Menn teldu að kominn væri tími til að breyta og það særði réttlætiskennd margra hvernig þar væri haldið á málum. Það er ástæða til að minna á þessi orð hans frá því fyrir einu og hálfu ári. Þó hefur ekkert verið gert til að koma til móts við réttlætiskenndina. Hvernig væri að láta á það reyna hvort hæstv. ráðherra vill standa við þessi orð? Eða voru þau bara sögð í takt við þjóðmálaumræðuna þá, í október 1999?

Ég tel að rétt væri að skoða fleiri breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem nú er. Ég er ekki að tala um að við höfum leyst öll mál með þessu frv. Samfylkingarinar. Ég er ekki búinn að sjá það en meginhluti breytinganna sem gerðar yrðu samkvæmt þessu frv. mundu skipta miklu máli.

Ég vil vitna í grein frá 8. október 1999 þar sem hv. þm. Kristinn Gunnarsson sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Sjávarplássið er auðlind. Fólkið sem veiðir fiskinn og vinnur úr honum er stærsta auðlindin.``

Ég tek undir þessi orð. Ég trúi því að hv. þm., formaður Byggðastofnunar, vilji gera breytingar. Það verða hins vegar engar breytingar nema þingflokkur hv. þm. standi með honum. Það er hvergi vart tilhneigingar til að lagfæra, hvað þá að taka upp og skoða málið sem hér liggur fyrir. Ég vona að hv. sjútvn. taki þetta mál, skoði það ofan í kjölinn og rannsaki það sem hér er verið að segja, en slái ekki málið út af borðinu vegna þess að þeir séu í meiri hluta sem styður ríkisstjórnina.

Því miður hefur fiskveiðistjórnarkerfið sem við búum við kallað á kvótabrask. Það eru til fínni orð um kvótabrask, t.d. hægt að kalla það viðskipti með aflaheimildir. Almennt eru viðskipti með aflaheimildir ekkert annað en kvótabrask. Ég segi það vegna þess að ef viðskipti leiða til skerðingar á kjörum sumra en öðrum er hossað fyrir atbeina löggjafans þá er það brask. Ég vil segja að það er siðlaust.

Ég tel að lögin hafi í upphafi ekki verið sett til að vinna þannig. Þess vegna verður að breyta. Við getum breytt ef við skoðum þær tillögur sem hér er fjallað um ítarlega og ofan í kjölinn.

Verði það frv. til laga sem hér er til umræðu samþykkt þá tel ég að við getum losnað við það sem ég kalla brask. Það er ekki bannað að framselja veiðiheimildir samkvæmt þessu frv. en hins vegar teknir af agnúarnir á framkvæmdinni.

Það má auðvitað velta fyrir sér hvað veiðiheimildirnar eru. Hvað er hafið í kringum okkur? Hafið í kringum okkur er almenningur. Almenningar eru í eigu þjóðarinnar. Það er ekki hægt að sjá á stjórn fiskveiða á Íslandi í dag. Í mínum huga eru almenningar hver sú auðlind sem finnst á láði, lofti og legi, og tilheyra landinu. Íslendingar eiga allir rétt á að njóta arðsins af gæðum landsins, af almenningum landsins. Í dag njóta aðeins örfáir, lítil hluti þjóðarinnar, arðsins með braski.

Kannski væri rétt að rifja upp af hverju kvótakerfið var sett á. Það var vegna þess að menn töldu auðlindina ofnytjaða, að henni væri hætta búin af því álagi og umgengni sem hún varð að þola. Hér voru veidd á milli 400 og 500 þúsund tonn af þorski árin áður en þessi lög tóku gildi. Það má velta fyrir sér hver árangurinn er. Höfum við getað aukið meðaltalsveiðina frá því þá? Nei, það eru minni veiðiheimildir til ráðstöfunar nú en þegar kvótalögin voru sett 1983.

Þegar lögin voru sett var rætt um að bæta umgengnina. Með því að einkavæða nytjastofnana yrði hægt að ná valdi á nýtingu þeirra. Útgerðarmenn mundu ganga betur um auðlindina og það yrði í þeirra þágu. Ákvarðanir um heildarmagn þess sem mátti veiða áttu að verða virtar. Hver er staðreyndin? Það er talað um að kastað sé í hafið aftur 100 þúsund tonnum, jafnvel meira segja sumir. Aðrir segja að það sé minna. En þó að það væru ekki nema 10 þúsund tonn sem hent væri í hafið aftur þá er það nægjanleg ástæða til að taka á málinu líkt og gert er ráð fyrir í þessu frv. Þar er gerð sérstök grein fyrir því hvernig menn ætla að reyna að koma í veg fyrir brottkastið. Hvers hagur er brottkastið? Það er hagur þess sem hirðir aðeins mestu verðmætin af úthlutuðum kvóta. Sá sem kemur þannig að auðlindinni hefur hag af því að henda verðminni fiski.

Menn ætluðu að auka arðsemina með minni fjárfestingu í fiskiskipum. Hver er raunin í því efni, virðulegur forseti? Líklega hefur ekki um langt skeið verið fjárfest jafnótæpilega í veiðiskipum og á síðasta ári. Hvar er rentan? Hvar er ágóðinn, virðulegur forseti, sem átti að verða til skiptanna fyrir eigendur auðlindarinnar, hina íslensku þjóð? Er hann kannski hjá þeim sem hafa fengið útdeilt aflaheimildum til að deila og drottna yfir að geðþótta, þ.e. þeim sem í dag fá úthlutað heimildum til að veiða?

Ætlunin var jafnframt að auka gæði aflans. Hafa þau aukist? Já, það er betur gengið um þann fisk sem að landi kemur. En eru það aukin gæði, allt það magn af síld sem fer til bræðslu á Íslandi? Eru það aukin gæði að setja þessa gæðavöru, sem líklega er veidd á röngum tíma, alla í bræðslu? Menn segja að annað sé ekki hægt vegna þess að hún hafi ekki náð því að vera nothæf til annarrar vinnslu.

Slysum átti að fækka. Menn töluðu um það í ræðum árið 1983 að slysum á sjó mundi fækka. Ég veit ekki hvort skráningin hefur verið jafngóð þá og hún er í dag en 1984 voru skráð 415 slys. Árið 1989 voru hins vegar 631 slys skráð. Getur maður dregið þá ályktun að aðeins skráningin hafi batnað eða þá að slysum hafi ekki fækkað? Þetta er alvarlegt, virðulegur forseti. Það er alvarlegt að menn skuli ekki hafa náð árangri í að fækka slysum á sjó með þessu kerfi sem þó átti að verða til þess.

Enn má spyrja margra spurninga. Er fiskveiðistjórnarkerfið að eyða byggð? Ég vona að virðulegir alþingismenn sem hér eru viðstaddir velti því fyrir sér hvort afleiðing fiskveiðistjórnarkerfisins sé sú að byggðir leggist í eyði. Ég tel að framkvæmd fiskveiðistjórnarkerfisins eyði byggð. Það sem framkvæmt er innan kerfisins. Menn hljóta að krefjast þess að gripið verði til aðgerða strax, sú krafa er m.a. fólgin í því frv. sem Samfylkingin leggur fram, að gripið verði til aðgerða, reynt að ná sáttum, málamiðlun sem skili þjóðinni í heild sinni einhverjum árangri.

Mér er fullkomlega ljóst hve vandasamt er að búa til kerfi sem sátt ríkir um. Það er ekki hægt að gera öllum til geðs. Þarfir og skoðanir eru ólíkar en ég tel að kerfið verði að vera hagkvæmt og réttlátt. Ég tel að í frv. því sem við í Samfylkingunni höfum lagt fram sé reynt að koma þessum sjónarmiðum saman, auka jafnræði í aðgang að auðlindinni og gefa þjóðinni allri möguleika á að njóta arðsins.

Herra forseti. Ég hef ekki sagt að um einfalda lausn sé að ræða. Hér er um flókna lausn að ræða. Í þessum efnum gefst engin ódýr lausn. Það eru ekki til svör við öllum spurningum. Lausnin sem hér er lögð fram felur hins vegar í sér jafnræði, jafnræði sem ég tel að meiri hluti þjóðarinnar geti sætt sig við. Þess vegna tala ég fyrir þessu frv.