Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 17:36:09 (5193)

2001-03-05 17:36:09# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[17:36]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ber djúpa virðingu fyrir þeim hv. þm. sem talaði áðan og ég virði líka þann flokk sem hv. þm. stendur fyrir. Bæði hv. þm., sem reyndist a.m.k. í atkvæðalegu tilliti vera kjölfesta flokksins, og flokkurinn sjálfur byggja tilvist sína á mjög rótgróinni og einbeittri andúð og andstöðu á því stjórnkerfi fiskveiða sem við höfum búið við síðan 1984. Ég mundi því telja, herra forseti, að hv. þm. væri einkar góður dómari á þau mál sem lögð eru fram í þinginu og fjalla um stjórnkerfi fiskveiða.

Hver var dómur þessa hv. þm., einhvers skeleggasta andstæðings kvótakerfisins, um það frv. sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum lagt fram? Hann sagði: Þetta er tímamótafrumvarp. Hann sagði að hann væri að sjálfsögðu ekki í öllum atriðum sammála frv. en hann sagði eigi að síður tímamótafrumvarp. Það sem hann fann því helst til foráttu var að það er talsvert meiri bratti í stefnu Frjálslynda flokksins en í þeirri stefnu sem við hjá Samfylkingunni höfum lagt fram. Það kom líka fram í máli hans þegar ræðu hans vatt fram.

Herra forseti. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson fór ákaflega skemmtilega og fróðlega yfir sögu kvótakerfisins og reynsluna af því og hafði e.t.v. ekki mjög mikinn tíma til að fara í það sem honum finnst vera agnúar á því kerfi sem við höfum lagt fram. Það var í rauninni bara eitt sem hv. þm. nefndi í ræðu sinni. Það er raunar það eina sem ég hef heyrt frá þeim hv. þm. sem eru innan vébanda Frjálslynda flokksins og er í andstöðu við þá stefnu sem Samfylkingin hefur lagt fram og það varðar framsalið. Hv. þm. Sverrir Hermannsson og Guðjón Arnar Kristjánsson hafa verið svarnir andstæðingar framsalsins.

Nú er það svo að mönnum sýnist sitt um þetta framsal en það er eigi að síður svo, herra forseti, að samkvæmt þeim tillögum sem Samfylkingin leggur fram er gert ráð fyrir því að eftir tíu ár, þegar það kerfi sem Samfylkingin leggur til er að fullu komið til framkvæmda, þá er framsalið úti. Hv. þm. má ekki horfa fram hjá því að þess vegna er í grundvallaratriðum ekki meginmunur á stefnu Frjálslynda flokksins og Samfylkingarinnar að þessu leyti. Mér sýnist því að hv. þm. gæti í reynd stutt þetta frv.

Ég vil útskýra þessa stefnu okkar örlítið frekar, herra forseti. Við leggjum til að menn taki mið af raunveruleikanum. Hann er sá að ekki er sátt um að kollsteypa kerfinu sem við búum við í dag. Þess vegna leggjum við til, þó að skiptar skoðanir séu í flokki okkar eins og öðrum um nytsemd aflamarkskerfisins, að áfram verði byggt á því og engar kollsteypur verði teknar varðandi grundvallaratriði kerfisins. Við höfum eigi að síður sagt að rétt sé að undið verði ofan af kerfinu á tíu árum. Á meðan á því stendur yrði kerfið rekið í sinni núverandi mynd. Það þýðir að mönnum er heimilt að framselja aflaheimildir.

Við teljum hins vegar að frá samkeppnissjónarmiðum og jafnræðissjónarmiðum sé ekki hægt að bjóða mönnum sem koma inn á því kerfi sem yrði við lýði ef tillaga okkar yrði samþykkt annað en að mega þá líka njóta hins sama. Þess vegna gerum við ráð fyrir því að menn geti framleigt frá sér aflaheimildir. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að samkvæmt skilgreiningu hans fellur þetta undir brask og vafalaust verða einhver brögð að því fyrstu árin sem þetta kerfi yrði við lýði. Eftir tíu ár er það búið og eftir því sem líður á tíu ára tímabilið minnkar það líka vegna þess að þá verður meira framboð til leigu á markaðnum og þess vegna minni þörf á þessum viðskiptum.

Herra forseti. Ég vil fagna því að hæstv. sjútvrh. Árni M. Mathiesen hefur setið undir þessari umræðu. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt. Við erum að ræða um mál sem er eitt umdeildasta mál í samfélaginu, mál sem segja má að síðustu kosningar hafi að nokkru leyti snúist um, mál sem hæstv. sjútvrh. og flokkur hans lofuðu fyrir síðustu kosningar að búið yrði að leysa og skapa sátt um þegar við kæmum til nýrra kosninga.

Hvernig er staðan núna, herra forseti? Engar líkur eru á því að einhvers konar sátt sé í sjónmáli. Hæstv. sjútvrh. hefur gengið hvað harðast fram fyrir skjöldu af þeim sem hafa gagnrýnt t.d. þingmenn Samfylkingarinnar. Hann hefur úr þessum ræðustól ásakað einstaka nafngreinda þingmenn Samfylkingarinnar fyrir að vera að hlaupast frá einhverri sátt, sátt sem gerð var í auðlindanefndinni, herra forseti. Undir þetta hafa ýmsir aðrir tekið.

Ég verð hins vegar að segja það, herra forseti, að mér finnst nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. hreinsi loftið og geri grein fyrir afstöðu sinni, geri grein fyrir afstöðu Sjálfstfl. Ekki dugar fyrir hæstv. sjútvrh. að koma fram í fjölmiðlum og koma fram á hinu háa Alþingi og segja að verið sé að slíta í sundur einhvern þráð sáttar sem lá millum manna eftir að auðlindanefndin skilaði skýrslu sinni. Staðreyndin er auðvitað sú, eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir rakti áðan, að einstakir forustumenn Sjálfstfl. hafa lagt sig í framkróka um að afbaka niðurstöðuna og afstöðu einstakra nefndarmanna sem birtist í skýrslu auðlindanefndar.

Herra forseti. Mér finnst að eftir það sem á undan er gengið sé nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. útskýri fyrir okkur hvernig hann sér þessa sátt verða. Nú er það svo, herra forseti, að við höfum fyrir framan okkur frv. Samfylkingarinnar sem endurspeglar í raun í tiltölulega nákvæmri útfærslu þá meginreglu sem birtist í skýrslu auðlindanefndar. Hér er lögð fyrir þingið hin svokallaða fyrningarleið. Það var önnur þeirra tveggja leiða sem var lögð fram í skýrslu auðlindanefndar.

Nú er það þannig, herra forseti, að fyrningarleiðin var í reynd, eins og ég sagði, meginreglan sem kemur fram í skýrslu auðlindanefndar. Það var líka svokölluð veiðigjaldsleið sem var fráviksleið. Hvers vegna kalla ég það fráviksleið, herra forseti? Vegna þess að það er alveg ljóst að meginreglan sem kemur fram í skýrslunni var sú að takmörkuðum náttúrugæðum skyldi úthlutað með útboðum á jafnræðisgrundvelli þar sem menn gátu keppt jafnfætis um að fá tímabundinn nýtingarrétt á þessum takmörkuðu auðlindum. Menn ákvæðu í nefndinni að fara þessa leið varðandi úthlutun á nýtingu jarðefna, úthlutun á nýtingu jarðhitaréttinda í eigu ríkisins, að ógleymdu, herra forseti, úthlutun fjarskiptarása. Síðan kom líka þessi meginregla fram varðandi sjávarútveginn. Hin leiðin er þess vegna fráviksleið.

Nú er það svo, herra forseti, að auðvitað þurfa allir að slá af til þess að hægt sé að ná sátt um mál. En það er ekki hægt að gera eins og formaður Sjálfstfl. hefur talað og eins og ég hef oft skilið hæstv. sjútvrh., að það sé einboðið að ef sátt eigi að nást um sjávarútveginn og stjórnkerfi fiskveiða verði það einungis á grundvelli veiðigjaldsleiðarinnar. Það er alveg rétt að það komi hér fram, herra forseti, að sú leið kemur ekki til greina í þeirri nöktu mynd sem hana er að finna í skýrslu auðlindanefndar. Taka verður tillit til þeirra sjónarmiða sem koma fram hjá Samfylkingunni í þessu. En auðvitað er hægt, herra forseti, að sameina þetta tvennt en það er enginn vilji á því af hálfu stjórnarliðanna, þ.e. af hálfu forustumanna Sjálfstfl. a.m.k.

Þess vegna finnst mér ákaflega nauðsynlegt í þessari umræðu að hæstv. sjútvrh. komi hingað og geri grein fyrir afstöðu sinni til fyrningarleiðarinnar. Hvað sér hann á móti henni annað en það að Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur lagst gegn henni? Hvað sér hann málefnalega gegn henni? Mér finnst nauðsynlegt að í svona mikilvægu máli komi menn og ræði það hreinskilnislega og málefnalega. Við í Samfylkingunni erum reiðubúin til að takast með rökum á við andstæðinga þessara tillagna og jafnvel breyta þeim ef við skynjum það að rökin hafa vægi og standa á traustum grunni. En ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. geri líka grein fyrir því hvort hann telji unnt að ná sátt um þessi mál eins og þau hafa þróast, án þess að tekið sé mið af þessari aðferð.

[17:45]

Herra forseti. Það er líka nauðsynlegt að menn fari að gera sér grein fyrir því að tíminn líður hratt og það styttist óðum til kosninga. Sjálfstfl. lýsti því yfir fyrir síðustu kosningar að hann mundi sjá til þess að deilurnar yrðu settar niður á þessu kjörtímabili og nú er kjörtímabilið að verða hálfnað.

Þegar skýrsla auðlindanefndar kom fram töluðu menn á þann veg að þar væri um kaflaskil að ræða og ég taldi líka að þar væri um kaflaskil að ræða vegna þess að þessar hugmyndir komu fram, m.a. um fyrningarleiðina og veiðigjaldsleiðina, og ég taldi að með því að fara bil beggja væri hægt að ná þessari sátt. En við sjáum það hins vegar að það er engu líkara en að Sjálfstfl. sé á skipulögðu ferðalagi brott frá þeim tillögum sem komu fram í skýrslunni. Við sjáum það t.d. á háttsemi hæstv. samgrh. varðandi úthlutun fjarskiptarása, því þrátt fyrir það sem segir í skýrslu auðlindanefndar þá ætlar hann ekki að fara leið útboðs. Við sáum það líka þegar hæstv. sjútvrh. ætlaði að taka á hinu mikla vandamáli sem felst í brottkasti afla að í staðinn fyrir að beita hagrænum aðferðum, eins og var auðvitað andinn í skýrslu auðlindanefndar, þá kaus hann frekar að fara leið boða og banna. Og nú virðist mér af þeim fregnum sem mér berast í gegnum fjölmiðla innan úr svokallaðri endurskoðunarnefnd eða kvótanefnd sem fulltrúar Sjálfstfl. ætli sér alls ekki að taka mið af fyrningarleiðinni. Það hafa komið fram fregnir um það í fjölmiðlum og þær hafa ekki verið til baka bornar. Þess vegna er nauðsynlegt að þetta komi fram, herra forseti: Hvaða afstöðu hefur Sjálfstfl. til þessarar leiðar?

Ég vísa til þess líka að það er meiri samhljómur með ýmsum talsmönnum annarra flokka og Samfylkingunni heldur en einmitt Sjálfstfl. Það er nú kannski í lagi og tilefni til þess að rifja það upp að ekki eru nema örfá ár síðan hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., reifaði nokkrar hugmyndir sem mér finnst sjálfsagt að menn dusti rykið af og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur reyndar gert í umræðu síðustu vikna. Ég rifja það upp að formaður Framsfl. nefndi það t.d. á sínum tíma, þegar menn stóðu frammi fyrir því gleðilega vandamáli að þurfa að útdeila kvótum til veiða í norsk-íslenska síldarstofninum að hann taldi á flokksþingi Framsfl., ef ég man rétt, sem haldið var þá á Hótel Sögu, koma vel til greina að þær veiðiheimildir yrðu með einhverjum hætti leigðar.

Ég minnist þess líka að seinna, eða hvort það var um svipað leyti sem hæstv. utanrrh. sagði að vel kæmi til greina að viðbótarkvóta í þorski og öðrum bolfiskum jafnvel yrði úthlutað með svipaðri leiguaðferð. Ég tel að í hugmyndum eins og þeim sem formaður Framsfl. hefur sjálfur reifað og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur tekið undir og felast í því að leigja kvóta umfram eitthvert tiltekið lágmark sé t.d. fólgin sáttaleið. En Sjálfstfl. ypptir öxlum og maður verður auðvitað að spyrja sjálfan sig: Getur verið að það sé ætlan Sjálfstfl. að þvæla þessu máli enn einu sinni fram yfir kosningar? Ég tel, herra forseti, að það sé ekki hægt að fallast á það. Ég tel að enn séu í fullu gildi þau orð sem formaður Framsfl. lét falla hér fyrir einu og hálfu ári og hv. þm. Gísli S. Einarsson rifjaði upp, að það særði réttlætiskennd íslenskrar alþýðu að horfa upp á það hvernig sumir misnotuðu kvótakerfið eins og það er í dag. Hæstv. utanrrh. sagði líka efnislega þá að hann skynjaði mikla undiröldu í samfélaginu vegna þess.

Herra forseti. Sú undiralda er ekki jafnmikil í dag og hún var þá en það er vegna þess að þessar tilfinningar alþýðu manna sofa, þær eru í dvala því að fólk treystir auðvitað þeim orðum forustumanna samfélagsins að verið sé að vinna að þessari sátt. Hvernig vindur þessari sátt síðan fram?

Þegar auðlindanefndin skilaði sinni skýrslu þá bjuggust menn við að í framhaldinu tæki við snörp lota þar sem menn mundu reyna að taka höndum saman á grundvelli þeirra tillagna sem þar koma fram. Ég átti von á því að fyrir síðustu áramót gætum við jafnvel haft í höndunum tillögur að nýjum lögum um það hvernig ætti að haga stjórn fiskveiða í framtíðinni. Þetta mál var sett inn í sérstaka endurskoðunarnefnd. Ég man ekki betur en að sú nefnd hefði átt að skila af sér fyrir áramót. Hún gerði það ekki. Síðan var talað um það að hún ætti að skila af sér upp úr áramótum. Nú bendir flest til að ef henni tekst að skila af sér á þessu vori þá verði það svo síðla vetrar að ekki takist að ræða afraksturinn hér á hinu háa Alþingi. Mér finnst því sem nokkuð hafi nú minnkað vonir um að það takist að breyta lögum á þessu ári. Og þess vegna er ekki nema von að maður spyrji: Á að þvæla þessu máli enn lengra?

Herra forseti. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að miðað við fregnirnar sem hafa komið frá kvótanefndinni þar sem hver hönd stjórnarliða er upp á móti annarri þá sé ákaflega ólíklegt að það verði barn í brók. Ég held hins vegar að það væri miklu farsælla að taka þetta mál inn í þingið, afgreiða málið í þinginu, láta fagnefnd þingsins, sjútvn., útkljá málið. Ég tel, miðað við þær umræður sem hafa farið fram hér í þinginu, miðað við þær yfirlýsingar sem hafa komið fram hjá einstökum þingmönnum annarra flokka en Samfylkingarinnar, að það væri hægt að ná samkomulagi. Auðvitað væri það samkomulag þannig að ekki væri gengið að ýtrustu vonum eða kröfum einstakra flokka en ég hugsa að það væri hægt. Samfylkingin væri fyrir sitt leyti til í að taka þátt í slíkri vinnu. Það var slík vinna sem við vildum taka þátt í í kjölfar þess að auðlindanefndin skilaði sinni skýrslu. En ég tel, herra forseti, að síðan hafi menn ferðast alllangan veg frá þeim niðurstöðum. Og ég tel að þeir sem eru komnir lengstan veg frá þeim niðurstöðum sé Sjálfstfl. Því tel ég ákaflega brýnt að hæstv. sjútvrh. hreinsi loftið og lýsi því yfir hver sé stefna hans varðandi framvindu málsins í endurskoðunarnefndinni. Er hann reiðubúinn til þess að taka málið hingað inn í þingið og láta Alþingi útkljá það í staðinn fyrir að láta það daga uppi í kvótanefndinni? Og hvað segir hann um þá leið sem hér er lögð fyrir?

Nú er tækifærið, herra forseti, til þess að fulltrúar Sjálfstfl. reifi sjónarmið sín og andrök gagnvart þeirri stefnu sem hér liggur fyrir. Þetta er, eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sagði í ágætri ræðu sinni áðan, eitt mikilvægasta málið sem liggur fyrir til umræðu í samfélaginu. Ég tel að við séum hér með ákaflega málefnalegum hætti, ekki fullkomnum en með ákaflega málefnalegum hætti að reyna að vinda ofan af því sem stundum hefur verið kallað mesta ranglæti Íslandssögunnar.