Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 17:56:53 (5196)

2001-03-05 17:56:53# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[17:56]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem fjallar að mestu leyti um eignarhald á auðlindinni en einnig um brottkast.

Ég fagna þessu frv. Ég held að allar hugmyndir séu vel þegnar og örvi umræðuna um þessi mál. Mér finnst að hv. þingmenn eigi að skoða opið allar þær hugmyndir sem koma fram. Ég hef sjálfur flutt tillögur og frumvörp, bæði um eignarhaldið, og þar lagði ég til að skoða þá hugmynd að eignarhaldinu yrði dreift á alla þjóðina, á hvern einstakling, eins konar einstaklingsvæðing, og hins vegar hef ég líka flutt frv. um brottkast sem ég held að sé nokkuð vel útfært. Það hefur reyndar ekki fengið mjög mikla umræðu en er núna fyrir hv. sjútvn.

Það hefur mikið verið rætt um sjávarútvegsmál undanfarið og svo sem undanfarna áratugi enda veigamikið mál og skiptir miklu, sérstaklega úti á landi. Atvinnugreinin sem slík býr við þær hremmingar reglulega að það á að kippa grundvellinum undan rekstri hennar með einum og öðrum hætti. Það er afskaplega lítið öryggi í þessari atvinnugrein og ég held að menn ættu að fara að hugleiða það hvort ekki sé mál að linni, annaðhvort að menn sættist á þessa lausnina eða á hina þannig að þeir sem stunda þessa atvinnu geti farið að snúa sér að rekstrinum.

Við höfum fyrir framan okkur skýrslu auðlindanefndar sem leggur til í megindráttum tvær leiðir, þ.e. fyrningarleið og veiðigjaldsleið. Á þessum leiðum er mikill munur. Veiðigjaldsleiðin felst í því að ríkið ákveði verðið fyrir aðgang að auðlindinni, fyrningarleiðin felst í því að veiðileyfin verða seld hæstbjóðanda, þ.e. atvinnugreinin sjálf ræður því hvað hún greiðir fyrir aðganginn að auðlindinni. Í hugum markaðsmanna er ekki spurning um það að sú leið er betri vegna þess að atvinnugreinin veit alltaf á hverjum tíma hvað hún getur greitt. Hins vegar geta opinberir aðilar illa séð hvaða álögur má leggja á greinina þannig að henni sé ekki ofboðið með álögum eitt árið eða að hún greiði of lítið fyrir aðganginn annað árið. Aðstæður breytast mjög hratt í þessari atvinnugrein, bæði hækkandi verð, aukinn afli eða minnkandi afli o.s.frv., dýrari sókn, olíuverð og alls konar hlutir koma inn í þetta sem opinberir aðilar eru ekki færir um að meta hverju sinni. Markaðsmenn trúa því að markaðurinn sé mun betur fær um að mæla slíkt heldur en opinberir aðilar, eins og gert var í Sovét. Það er því töluverður munur á þessum leiðum.

[18:00]

Einnig hefur þetta áhrif á nýliðun. Ef markaðurinn ræður verðinu býður hann væntanlega það verð sem að meðaltali gefur hagnað og þá eru allir jafnir, jafnt trillukarlinn á Vestfjörðum sem stórútgerðin á Akureyri eða í Reykjavík. Það er bara spurningin um það hver getur veitt ódýrast. Hann fær veiðiheimildina. Ég hygg að þegar allt er skoðað, fjárfesting per sjómann, fjárfesting per veitt tonn, þá sé smábátaútgerðin kannski ekki svo óarðbær þegar á allt er litið þannig að það gæti verið að mikil markaðsvæðing á aflaheimildum leiði til þess að vöxtur kæmi í þá grein sem getur veitt ódýrast.

Í þessu frv. eru lagðar til nokkuð brattar afskriftir, þ.e. á tíu árum á að taka þær heimildir sem menn hafa kannski nýlega keypt, aðrir hafa keypt fyrir mörgum árum og sumir hafa aldrei keypt. Það er kannski einmitt það, herra forseti, sem hefur valdið mismununinni að sumir reka fyrirtæki sín með gefnar heimildir á meðan aðrir reka þau með keyptum heimildum, heimildum sem hafa verið keyptar dýrum dómi.

Á þessari leið og þeirri leið sem ég hef lagt til, að veiðiheimildunum yrði dreift á alla þjóðina, á hvern einstakling, er einn veigamikill munur. Í þessari leið hirðir ríkið arðinn, en í þeirri leið sem ég lagði til að yrði skoðuð er það einstaklingurinn sem hirðir arðinn og þetta hefur áhrif á uppboðsferlið vegna þess að þegar einn aðili er að bjóða verður hann yfirmáta sterkur á markaðnum. Það er engin samkeppni í framboði á veiðiheimildum og hættan er sú að útgerðin verði ofurseld þessum eina aðila sem er að bjóða veiðiheimildir. Í því kerfi sem ég lagði til væru það hins vegar sennilega um 270 þúsund aðilar, sumir náttúrlega blokkaðir saman í fjölskyldur, sem mundu bjóða veiðiheimildir til sölu og útgerðin gæti valið úr þannig að það myndaðist miklu virkari markaður svona fyrir þá sem hafa trú á markaði.

Það sem mælir á móti báðum þessum leiðum er séreignarstefnan, sem sumir hafa trú á, og ég þar á meðal, að einstaklingur gangi yfirleitt betur um eign sína en einhver sem ekki á hana. Þetta á við t.d. um lóðir eða bíla eða hús, að maður sem á húsið sitt er duglegri að mála það og gera við það og halda því við.

En það er verra með fisk sem er syndandi um sjóinn. Það er svipað eins og ég og einhver annar hv. þm. ættum tvo bíla og bílarnir skiptu stöðugt um eiganda. Ég er hræddur um að ég væri ekkert voðalega duglegur að gera við púströrið í mínum bíl ef ég vissi að hann færi fljótlega yfir til hins eigandans. Séreign sem er í eigu margra, sem er syndandi þess utan, hefur ekki þá eiginleika séreignar að menn gæti hennar sérstaklega. Þess vegna rembast allir við eins og þeir mögulega geta að veiða sem allra mest af því að það gæti verið að fiskurinn slyppi til hins eigandans næst þegar hann syndir um sjóinn. Þessi eign hefur því ekki þann eiginleika sem er kostur séreignarstefnu.

Mikið hefur verið rætt, og það er gert í þessu frv., um framsal sem sumir telja hinn versta löst kerfisins. Þó má færa fyrir því rök og þau mjög skotheld að kerfið er því hagkvæmara sem framsalið er frjálsara vegna þess að ef framsalið er ekki frjálst, bundið við skip eða eitthvað slíkt, verða menn að gera út þetta skip til að ná í veiðiheimildina. Hvað sem það kostar, herra forseti, verður að gera út þetta skip. En ef það má framselja getur einhver annar sem getur veitt betur og auðveldar, ódýrar, fengið það framselt til sín og getur veitt ódýrar og borgað hærra verð til þess sem átti heimildina upphaflega en sá gæti nokkurn tíma haft hag af henni. Eftir því sem framsalið er frjálsara þeim mun meiri hagræðing og hagnaður er í kerfinu. Auðvitað ættu menn að hafa framsalið algjörlega frjálst, bara svífandi, og það var einmitt það sem ég lagði til. En hér er horfið frá því, væntanlega af ótta við orðið ,,brask`` sem sumum finnst voðalega ljótt orð en vestræn hagkerfi ganga nú fyrir samt sem áður og heitir ,,viðskipti`` á góðu og fallegu máli og þykir ekkert ljótt, hvorki með olíu, landbúnaðarafurðir né fisk. Þegar komið er til útlanda þykir það ekki brask að selja fisk. Auðvitað mundu einhverjir í Bandaríkjunum vilja kaupa fisk á tíkall með einhverri úthlutun, en það heitir brask að neyða þá til að borga meira fyrir fiskinn.

Varðandi þær hugmyndir sem hér eru um brottkastið, þá eru þær ekki mjög veigamiklar. Þær eru eingöngu til tveggja ára og ekki mikið útfærðar og það er kannski ljóður á þessu kerfi. Þar er meiningin að hafa tilraunalagasetningu í tvö ár og sjá hvernig það reynist. Gott og vel, menn geta prófað það. En ég er alveg sammála flutningsmönnum um að boð og bönn leiða yfirleitt til lögbrota. Þegar menn eru settir í þá stöðu eins og margir sjómenn að geta hvorki veitt fiskinn né komið með hann að landi, þá eru menn settir í þá stöðu að þeir verða að brjóta lög og það er ekki gott. Það er miklu betra að menn hafi einhvern hvata til að koma með fiskinn að landi. Það er gert ráð fyrir því hérna og það var gert ráð fyrir því í frv. sem ég hef flutt og liggur fyrir hv. sjútvn.

Herra forseti. Það hafa komið fram nokkrar hugmyndir undanfarið og vil ég nefna t.d. hugmynd hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um að taka veiðiheimildirnar af þeim sem hafa þær í dag og endurúthluta. Reyndar eru tveir stórir ókostir við þá hugmynd. Það hefur ekki verið sagt hvernig ætti að taka þær af og ekki heldur hvernig ætti að endurúthluta. Ef það á að taka þær af á einu bretti er ég hræddur um að það yrðu heldur miklar sviptingar á verðbréfamarkaði á næstu dögum, sérstaklega ef það ætti að gerast í næstu viku. Ef á að taka þær í burtu á tíu árum, eins og í þessari hugmynd er gert ráð fyrir, hefði það líka áhrif og svo kemur vandinn mikli: Hvernig á að endurúthluta? Ég sting því við hv. þm. að ég vildi gjarnan taka við svo sem eins og nokkur hundruð þúsund tonnum fyrir sjálfan mig ef það kemur að endurúthlutun.

Þau mál sem við ræðum hérna um sjávarútveg eru sem betur fer minnkandi í vægi vegna þess að sjávarútvegur hefur minnkandi vægi í landsframleiðslu og þar af leiðandi er þetta ekki eins óskaplega mikið mál og það var fyrir þjóðina fyrir nokkrum árum. En engu að síður er þetta mjög mikilvægt mál og alveg sérstaklega fyrir margar byggðir úti á landi og þess vegna er mjög brýnt að finna á þessu einhverja lausn og mikilvægt, eins og ég gat um í upphafi, að finna varanlega lausn sem sátt er um þannig að atvinnugreinin sem slík geti búið við stöðugleika.

En ég vil ganga miklu lengra. Ég vil skoða hvað það kostar þessa atvinnugrein að búa við þá óskaplegu lagaramma sem hún býr við, lagafyrirmæli. Hún er rekin nánast af löggjafarsamkundunni. Ég hef oft reynt að setja mig inn í þessi lög. Það tekst aldrei. Ég er kannski ekki nógu greindur til þess. Og svo þegar maður þykist vera búinn að skoða eitthvert lagafrumvarpið, einhver lögin, og maður telur sig vera farinn að skilja þau og fer að spyrja, þá er komin einhver reglugerð og hún er einhvern veginn öðruvísi. Og svo þegar maður er búinn að lesa reglugerðina kemur í ljós að framkvæmdin er enn önnur. Þetta er óskaplega flókið mál og það hafa sjómenn sagt mér að það sé miklu betra að vera lögfræðingur en góður sjómaður þegar menn eru að gera út, það sé nauðsynleg forsenda útgerðar að vera góður lögfræðingur og þekkja inn á öll þessi lög, reglugerðir og framkvæmdina sérstaklega.

Í greinargerð með þessu frv. finnst mér ekki nægilega tekið á því sem ég hef margoft bent á, að við erum að meina ýmislegt þegar við tölum um kvótakerfið. Við erum að tala um vísindalega stjórn fiskveiða sem er einn þátturinn og hefur verið gagnrýndur töluvert mikið. Sumir tala um ríkisvísindi sem þóttu nú ekki góð í Rússíá í gamla daga. Síðan erum við að tala um aflamark og sóknarmark, hvers lags veiðistjórnarkerfi við viljum hafa. Síðan komum við að veiðiheimildum, eignarhaldi á þeim, sem er aðaldeilumálið að mínu mati, og svo að lokum framsali á þessum sömu veiðiheimildum, hvort sem það eru kíló sem menn mega veiða af ákveðnum tegundum eða dagar eða klukkutímar eða veiðigeta í sóknarmarkskerfinu. Hvort tveggja hefur verðmæti og það þarf að taka á eignarhaldinu.

En eins og ég gat um í upphafi, herra forseti, fagna ég framkomu þessa frv. Ég held að það sé mjög brýnt að það komi fram sem flestar hugmyndir og menn geti vegið þær og metið og skoðað kosti og galla og síðan beri menn gæfu til þess að finna á þessu lausn þannig að útgerðarmenn geti farið að veiða í friði.