Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 18:11:43 (5197)

2001-03-05 18:11:43# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[18:11]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ræðuna, það var margt athyglisvert í henni. Ég ætla að svara hluta af því.

Hv. þm. sagði að útgerðin væri ofurseld einum seljanda. Ég mundi vissulega hafa áhyggjur af svoleiðis ástandi ef seljandinn væri ekki í þessu tilfelli þjóðin sjálf og menn geta þess vegna skapað reglur fyrir þennan seljanda sem eru hugsaðar fyrst og fremst út frá hagsmunum þjóðarinnar og hagsmunum útgerðarinnar í landinu. Það kemur einmitt fram í máli okkar að það er ætlast til þess að framboðið á þessum markaði verði einmitt hugsað þannig. Það verði stöðugt framboð, útgerðarmenn viti nákvæmlega hvenær veiðiheimildirnar verða til reiðu og viti það langt fram í tímann og þetta verði ekki eins og ef við værum að horfa framan í það t.d. að veiðheimildirnar hefðu safnast á örfárra hendur og þær yrðu síðan seldar á markaði þar sem einkahagsmunir réðu ríkjum. Slíkur markaður mundi verða upptekinn af því fyrst og fremst að menn væru að spá í það hvenær væri hægt að fá hæsta verðið og jafnvel fresta sölu og mynda jafnvel skort á aflaheimildum til þess að hækka upp verðið. Þetta er mjög mikilvægt atriði og skiptir að mínu viti mjög miklu máli þegar menn eru að velta þessum hlutum fyrir sér því að áframhaldandi séreignarhald á veiðiheimildum mun að mínu viti kalla á ástand eins og ég var að lýsa áðan.