Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 18:13:50 (5198)

2001-03-05 18:13:50# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[18:13]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég benti á að það væri einn seljandi. Hv. þm. sagði að það væri þjóðin sjálf. Ég segi að það sé ríkið og ég geri mikinn mun á þjóð og ríki. Ég hef margoft bent á að það er alls ekki það sama, þjóð og ríki.

Þannig er að í ríkinu ræður ríkisstjórn og ríkisstjórnin er samsett úr einhverjum flokkum og hún hefur kannski önnur sjónarmið en þjóðin og þá er ég að hugsa til framtíðar því það eiga eftir að koma margar ríkisstjórnir hér á landi. Það gæti vel verið að ríkisstjórnin væri í einhverjum vandræðum og þyrfti að gera eitthvað og þá beitti hún þessu tæki sínu sem hún hefur, sem einstaklingur gæti aldrei gert, af því að ríkisstjórnin hefur ekki bara þessar heimildir til sölu á uppboði heldur hefur hún líka löggjafarvald að miklu leyti, hafandi meiri hluta Alþingis á bak við sig.

Ég hef því ekki sannfærst um það af ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að þetta sé ekki einn seljandi og ég sé ókostina við þetta fyrirkomulag umfram marga seljendur eins og í þeirri hugmynd, sem ég lagði til, að þessu yrði dreift á alla þjóðina.