Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 18:15:12 (5199)

2001-03-05 18:15:12# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[18:15]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvaða trygging væri fyrir því að það yrðu margir seljendur ef það kerfi sem hv. þm. vill koma á yrði til? Væri ekki líklegt að einhverjir mundu taka að sér að selja fyrir þessa mörgu seljendur? Væri ekki líklegt að það yrði til einhvers konar kvótafyrirtæki sem mundi sjá um það að fá sem allra hæst verð fyrir veiðiheimildirnar og mundi fólk almennt geta staðið í því að vera að spekúlera í því hvenær ætti að selja og hafa á því allt vit? Mundu menn ekki fá sérfræðingana til þess að vinna það verkefni fyrir sig?

Mér þykir sárt að heyra að hv. þm. treystir ekki ríkisstjórn en ég trúi því að ef hv. Alþingi þyrfti að glíma við það að búa til reglur fyrir slíkan seljanda sem við værum að tala þarna um sem væri auðvitað þjóðin, hvað sem menn vilja nú kalla það, þá mundu þær reglur verða látnar miðast við þarfir sjávarútvegsins vegna þess að þegar upp er staðið þá skiptir það öllu máli til að arðurinn verði sem mestur af rekstrinum.