Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 18:22:21 (5205)

2001-03-05 18:22:21# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[18:22]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það var merkilegt að hlýða á hv. þm. gera því skóna að ríkisstjórn þyrfti ekki að vera með sömu skoðanir eða hagsmuni og þjóðin og þar af leiðandi væri erfitt fyrir þjóðina að þurfa að treysta ríkisstjórn.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm. að þetta frv. Samfylkingarinnar gerir ráð fyrir þjóðareign á auðlindinni með alveg sama hætti og við aðhyllumst það að þær náttúruauðlindir sem þegar eru annaðhvort tileinkaðar þjóð eða taldar ríkiseign, séu skilgreindar sem þjóðareign og meðhöndlaðar með sérstökum hætti. Þannig er það.

En það var umfjöllun hv. þm. um afskriftir, um kaup öllu heldur sumra á veiðiheimildum á meðan aðrir höfðu fengið gefins eins og hann orðaði það. Nú kemur það fram í frv. okkar að á aðlögunartímanum geti menn afskrifað þær veiðiheimildir sem þeir hafa keypt í núgildandi kerfi. Þetta er hins vegar ekki hægt lengur --- ætli það sé ekki fyrsta árið í ár sem mönnum er ekki heimilt að afskrifa kaup á veiðiheimildum. Mér fyndist fróðlegt að heyra afstöðu hv. þm. til núverandi ástands. Finnst honum að það sé eðlilegt ástand að menn hafi ekki heimild til þess að afskrifa þær veiðiheimildir sem þeir hafa keypt eða er hann sáttur við það ástand sem er að skapast með þeim lögum sem voru samþykkt hér á hinu háa Alþingi um það efni?