Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 18:24:14 (5206)

2001-03-05 18:24:14# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[18:24]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi ríki og þjóð. Einu sinni voru Íslendingar þegnar Danaveldis og það er hætt við að sú ríkisstjórn hefði kannski ekki haft sömu skoðun á hagsmunum Íslendinga og þeir sjálfir.

Varðandi afskriftirnar þá er ákveðið rökrétt samhengi þarna á milli. Ef veiðiheimildirnar eru að eilífu eign þeirra sem þær hafa með höndum, þá er óeðlilegt að afskrifa þær nákvæmlega eins og það er óeðlilegt að afskrifa land sem menn eiga.

Hins vegar ef á að fara að taka þetta af mönnum með þeim hætti sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur lagt til og liggur í þessu frv. og einnig þeim hugmyndum sem ég lagði til, þá er eðlilegt að það megi afskrifa það. Í öllum þessum tillögum, alla vega þessari og þeirri sem ég lagði til, er gert ráð fyrir því að upptaka á þessari eign verði milduð með því að menn geti afskrifað þessa eign sína á þeim tíma sem upptakan á að taka. Þannig niðurgreiði ríkið í rauninni með minnkandi skatttekjum upptökuna á eigninni. Þarna er eðlilegt samhengi á milli þannig að ég sé ekki annað en að það sé mjög rökrétt að ef eignarhaldið er eilíft, þá sé það ekki afskrifað.