Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 19:00:58 (5216)

2001-03-05 19:00:58# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[19:00]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það var fróðlegt að heyra það að alla síðustu öld hefðum við stundað ofveiði á fiskstofnum. Það var ekki annað að heyra á því svari sem hæstv. ráðherra gaf áðan. Það hafi sennilega eftir 1991 komið til það kerfi að breytinga megi vænta. Síðan þakkar sjútvrh. kvótakerfinu sérstaka fæðingartíðni hjá þorskinum sl. þrjú til fjögur ár.

Ég vil benda hæstv. ráðherra á að lesa skýrslu Hafró. Það má líka finna fjögur ár eða nokkur ár saman sem voru mjög góð klakár, hæstv. ráðherra, hjá þorskinum hér á árum áður, það var reyndar fyrir daga kvótakerfisins.

En svo held ég að sé rétt að víkja að öðru. Hæstv. ráðherra talar um góða uppbyggingu uppsjávarfiskstofnanna og minnist þar á síldarstofnana. Það vill svo til að íslenski síldarstofninn virðist hafa frosið í 500 þúsund tonna stærð og ekki að sjá að hann byggi sig mikið meira upp. Við veiðum yfirleitt um 100 þús. tonn af síld á hverju einasta ári. Það er kannski einhver sú stærð sem síldarstofninn fer bara í. Ég veit það ekki. Ég þekki ekki þá líffræði. Mér finnst það hins vegar furðulegt miðað við nýtingu á stofninum að hann skuli ekki geta stækkað áfram.

Svo vil ég vekja athygli á því að aðrir botnfiskstofnar, þar á meðal þorskurinn, ýsan, ufsinn og fleiri botnfiskstofnar, hafa ekki verið í neinni sérstakri uppbyggingu, hvorki síðasta áratug nýliðinnar aldar né fyrr á þessu kvótatímabili. Ég hef a.m.k. ekki séð það.

Ég vona svo sannarlega að það sé rétt hjá ráðherranum að nú sé allt á uppleið og blóm og björt framtíð fram undan. Ég mundi vissulega gleðjast með honum yfir því.