Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 19:08:31 (5221)

2001-03-05 19:08:31# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[19:08]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf athyglisvert að fá uppbyggjandi gagnrýni frá hv. þm., en ástæðan fyrir því að ég fór ekki ítarlega í umfjöllun um frv. er sú að annars vegar er um endurflutt frv. að ræða og við höfum rætt þessi mál áður í samhengi og hins vegar vegna þess að eins og fram hefur komið er nefnd að vinna í þessum málum á vegum sjútvrh. og það starf sem þar er unnið og niðurstaðan í því mun verða grundvöllur þeirrar stefnu sem sjútvrh. mun kynna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í fyllingu tímans. Því er ástæðulaust fyrir mig að fara í djúpa umræðu um frv. á þessu stigi málsins. En vegna þeirra fullyrðinga sem hér voru hafðar uppi um það hversu vel þetta frv. passaði að niðurstöðum auðlindanefndarskýrslunnar þá var full ástæða til að benda á nokkur atriði sem sýndu að svo væri ekki.

Varðandi það að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé mér mjög ósammála um gjaldtökuna en þó sammála mér um hitt, sem er út af fyrir sig ánægjulegt, þá höfum við oft áður verið ósammála og lifað það af.