Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 13:44:38 (5224)

2001-03-06 13:44:38# 126. lþ. 82.6 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[13:44]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Frv. sem hér liggur fyrir hv. Alþingi er eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra niðurstaða af ákveðnu ferli sem verið hefur í gangi varðandi kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn. Þar spila inn í bæði atvinnuhagsmunir Mývetninga og sömuleiðis hvernig menn vilja hafa umgengnina um þá sérstæðu náttúru sem þar er.

[13:45]

Frv. í öllum sínum einfaldleik hljóðar náttúrlega fyrst og fremst upp á það að iðnrh. verði heimilt að selja þann eignarhlut ríkisins sem er í kísilgúrverksmiðjunni, eignarhlut sem er upp á 51%, og ég vil að það komi fram hér strax, herra forseti, að það er eðlilegt. Ríkið á ekki og þarf ekki að vera eigandi í verksmiðjum af þessu tagi ef ekki ber til þess brýna nauðsyn af einhverjum þeim sérstöku aðstæðum sem kalla eftir slíku. Ekki verður sagt í þessu tilfelli að svo sé.

Atvinnusaga okkar Íslendinga segir okkur að á einhverju stigi hafi á býsna mörgum sviðum málum verið þannig fyrir komið að lítið var um fjármagn eða þekkingu þannig að hið opinbera kom að stofnun eða upphafi ýmiss rekstrar en í dag búum við við þær aðstæður að þess þarf ekki lengur með. Ríkið er þá fyrst og fremst sá aðili sem sér um að rekstrarumhverfi og starfsumhverfi fyrirtækjanna sé eðlilegt og síðan er auðvitað um að ræða eftirlitshlutverk með því að farið sé að þeim lögum og þeim reglum sem lúta að starfseminni.

Herra forseti. Sama á að eiga við hvort sem um er að ræða verksmiðju í Mývatnssveit eða annars staðar. Hér háttar þannig til að einkaaðili er tilbúinn að taka við rekstrinum og ekki þá bara hluta ríkisins heldur hluta allra eignaraðila. Áform hans hafa komið fram opinberlega og eru hluti af því samkomulagi sem gert hefur verið við iðnrn. Þau eru kunn og eru m.a. rakin í grg. frv.

Að þessu samanlögðu vil ég endurtaka að það er fullkomlega eðlilegt að fallast á að iðnrh. verði heimilt að selja þau 51% sem eignarhluti ríkisins hefur verið í þessu fyrirtæki. Að sjálfsögðu binda menn vonir við að með þessum gjörningi sé atvinnumálum í Mývatnssveit komið í öllu tryggara horf en verið hefur á undanförnum árum þar sem átök um umhverfismál, átök um framtíð kísilgúrverksmiðjunnar hafa sett mikinn svip á hvernig menn hafa litið til stöðu Mývatnssveitar og framtíðar hennar. Auðvitað er það svo að íbúar þar hafa verið afskaplega uggandi um sinn hag og framtíð sína.

Í grg. kemur fram örlítil frásögn af skýrslu sem Byggðastofnun gerði árið 1997 um þýðingu Kísiliðjunnar fyrir efnahag og atvinnulíf í Mývatnssveit. Niðurstaðan varð sú að líklega mætti telja að 75 ársverk mundu hverfa úr atvinnulífi sveitarfélagsins ef starfsemi Kísiliðjunnar hf. yrði hætt og að um 210 íbúar þyrftu að finna sér annað lífsviðurværi að öðru óbreyttu. Eftir því sem mat Byggðastofnunar segir þá stendur eftir 260 manna samfélag sem yrði að stórum hluta í dreifbýli með um 130 ársverk og um 10% lægri meðallaun en nú er.

Stundum skilja menn ekki hversu mikilvægir hlutirnir eru ef tölurnar eru litlar en ef þetta væri yfirfært yfir á aðrar stærðir eins og yfir á Reykjavík og menn þyrftu að líta til þess að fast að því helmingur íbúa yrði að finna sér lífsviðurværi eða búsetuskilyrði annars staðar sjá menn auðvitað hvert hlutverk þessi atvinnurekstur hefur haft í Mývatnssveit og hversu stóran hlut hann hefur átt að uppbyggingu í sveitarfélaginu og því mannlífi sem þar hefur verið lifað.

Herra forseti. Þess vegna er afskaplega mikilvægt að nú liggja fyrir áætlanir um það hvernig hægt er og vonandi verður unnt að halda áfram atvinnurekstri á þessu svæði, atvinnurekstri sem getur þá væntanlega lifað í bærilegri sátt við umhverfi sitt þannig að þeim deilum sem verið hafa linni, þær verði settar niður með tímanum vegna þess að sá atvinnurekstur sem við tekur er ekki háður kísilgúrtöku úr Mývatni með sama hætti og verksmiðjan sem nú starfar, Kísiliðjan.

Óöryggið á undanförnum árum hefur ekki aðeins, herra forseti, verið vegna deilna sem uppi hafa verið um réttmæti þess að nýta vatnið sem námu heldur hefur jafnframt legið fyrir að það námaleyfi sem verksmiðjan hafði mundi renna út á tilteknum tíma og að áður en það rynni út yrði náman í rauninni þorrin, þ.e. sú náma sem menn höfðu leyfi til að nýta eða sá hluti vatnsins. Kannski má segja að það sé eins og á elleftu stundu að hægt er að setja mál í nýjan farveg enda þótt skipulagsstjóri ríkisins hafi heimilað að kísilgúr yrði tekinn úr afmörkuðum svæðum í Syðriflóa að uppfylltum ströngum skilyrðum og að sá úrskurður hafi verið staðfestur af umhvrh. með þó nokkrum breytingum vegna þess að ég held að flestir hafi séð það fyrir, herra forseti, og sjái það fyrir að seint verði friður um kísilgúrtöku úr Mývatni. Það er því afar mikilvægt að það skuli geta komið til atvinnustarfsemi í Mývatnssveit sem nýtir þá þekkingu sem þar er, sem nýtir þann mannauð sem þar er með þeim hætti sem getur orðið og við bindum vonir við og að það sé þá starfsemi sem er ekki algjörlega háð því að nýta vatnið eins og gert hefur verið. Það held ég að sé kjarni málsins.

Hæstv. iðnrh. fór yfir þau áform sem eru uppi um framhald atvinnurekstrar í Mývatnssveit og ég ætla ekki að lengja mál mitt með því að fara yfir það. Hins vegar finnst mér ástæða til að lýsa því yfir að mér finnst ánægjulegur og mér finnst það beri að fagna þeim samstarfssamningi sem iðnrh. og Allied EFA hafa skrifað undir. Ég held að mikilvægt sé að iðnrn. nái með þeim hætti sem þarna er samstarfi við fyrirtækið sem er að setja á stofn ýmiss konar starfsemi sem getur einkar vel átt heima ekki síst í Þingeyjarsýslum vegna þeirra landkosta sem þar eru með háhitasvæði og mikla orku en jafnframt fyrirtæki sem ekki eru mjög mannfrek. Mér sýnist að ef allt fer á besta veg getum við horft til þess að út úr þessum samstarfssamningi geti komið frekari atvinnutækifæri, atvinnutækifæri sem eru þá í hátækniiðnaði og geta nýtt bæði þekkingu sem er á svæðinu og ekki þá síður hitt: laðað fólk með menntun og þekkingu til að takast á við þessi verkefni.

Herra forseti. Ég sit í iðnn. og mun þar að sjálfsögðu fá tækifæri til þess að fara nákvæmlega yfir þá þætti málsins sem ástæða er til að skoða nánar eins og það hvernig lögin líta út þegar búið er að fella út 1.--11. gr. í stað nýrrar 1. gr. og svo 12. gr. og hvernig hún er þá í samanburði við gildandi ákvæði og fá þá allar forsendur þeirra breytinga sem þar eru á ferðinni. En ég vil gjarnan í lok ræðu minnar nefna það sem ég a.m.k. rek augun í og ég veit að svo er um fleiri þegar þeir fá þetta frv. í hendur og lesa hér: ,,Iðnrh. er heimilt að selja 51% eignarhlut íslenska ríkisins í Kísilverksmiðjunni hf. við Mývatn.`` Af hverju fer fagráðherra með eignarhlut ríkisins í þessu fyrirtæki?

Þetta er ekkert einstakt, við vitum það. Fagráðherrar hafa í einhverjum tilfellum farið með fyrirsvar eignarhluta ríkisins í viðkomandi fyrirtækjum og núna þegar menn hafa verið að hf-væða gömlu ríkisfyrirtækin eins og Póst og síma er það samgrh. sem fer með fyrirsvar eignarhluta ríkisins, fer með hlutabréfið í þessum fyrirtækjum, í Íslandspósti og Landssímanum. Þetta er óeðlilegt að mínu mati, herra forseti, og þetta er heldur ekki í samræmi við reglugerð um Stjórnarráð Íslands þar sem segir að fjmrn. fari með eignir ríkisins, þar á meðal verðbréf og hlutabréf svo og fyrirsvar vegna þeirra, m.a. að því er tekur til stjórnar fyrirtækja í eigu ríkisins að öllu leyti eða nokkru --- nema lagt sé til annars ráðuneytis.

Þarna er reyndar til sá fyrirvari, að hægt sé að leggja til annars ráðuneytis en meginreglan á að vera hin. Mér finnst nauðsynlegt, herra forseti, að menn velti þessu aðeins fyrir sér vegna þess að auðvitað er mun eðlilegra að fjmrn. fari með fyrirsvar ríkisins hvað varðar eignarhlut í einstökum fyrirtækjum. Það hlýtur að orka tvímælis að sami aðili fari með æðsta vald í fyrirtæki og sá sem setur almennar leikreglur fyrir öll þau fyrirtæki sem starfa í viðkomandi grein.

Mér finnst, og tel eins og ég sagði að ég tali þar fyrir hönd fleiri, að brýnt sé að þeirri meginreglu sem mörkuð er í reglugerðinni um Stjórnarráðið sé fylgt og að fjmrn. fari með eignarhlut ríkisins í sem flestum og öllum fyrirtækjum nema um sé að ræða einstök tilvik þar sem menn geti nýtt sér þessa aukasetningu ,,nema lagt sé til annars ráðuneytis``.

Herra forseti. Það er betra fyrir alla að þessar leikreglur séu alveg skýrar og að opinber fyrirtæki verði þá ekki gagnrýnd a.m.k. fyrir að þau njóti þeirra forréttinda að sami aðili fari með fyrirsvar eignarhlutar í þeim og sé í rauninni æðsti yfirmaður þeirra og sá sem setur leikreglur fyrir allan markaðinn og öll fyrirtæki verða að lúta.

Herra forseti. Ég held að á þessu stigi sé ekki öllu meira um þetta mál að segja nema menn vilji steypa sér út í umræður sem eiga þá síður við en hvað varðar eignarhlut ríkisins þar sem þetta frv. fjallar fyrst og fremst um hvernig skuli farið með eignarhlut ríkisins, og í þessu tilfelli er verið að leggja til að hann verði seldur. Auðvitað er hægt að halda langar ræður um atvinnumál á landsbyggðinni, um umhverfismál og ýmislegt fleira. Það gefur tilefni til þess, en ég ætla að láta það eiga sig nú, herra forseti. Mér sýnist að efni máls skipti hér öllu, þ.e. að ráðherra fái þá heimild sem hann leitar eftir til að selja eignarhlut ríkisins í Kísiliðjunni hf. við Mývatn og að það verði frágengið á Alþingi enda standa allar vonir til þess að það verði atvinnulífi í Mývatnssveit til framdráttar frekar en hitt.