Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 14:12:29 (5226)

2001-03-06 14:12:29# 126. lþ. 82.6 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[14:12]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þetta frv., aðdragandinn að því og það sem fram undan er, markar tímamót við Mývatn. Segja mætti að það hafi legið í loftinu tvö síðustu ár að eitthvað þessu líkt kynni að gerast. Menn höfðu að vísu gert sér vonir um að ný verksmiðja risi við hlið Kísiliðjunnar þar sem kísilduft yrði framleitt þannig að atvinnulífið við Mývatn mundi styrkjast meira en ella en eins og nú standa sakir virðist svo ekki verða.

Þessi slagur um Kísiliðjuna er orðinn nokkuð langur. Það er laukrétt sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði áðan að hann hefur frá öndverðu verið mjög harður. Afstaða manna hefur í grófum dráttum farið eftir flokkum. Þó man ég að 1. þm. Norðurl. e. á þeim tíma, Karl Kristjánsson, var einn af þeim mönnum sem harðast og best barðist fyrir Kísiliðjunni þó flokksbræður hans væru þar ekki allir á sama máli.

Ég hygg að óhætt sé að segja að afstaða Alþb., forvera flokks hv. 3. þm. Norðurl. e., Steingríms J. Sigfússonar, hafi á sínum tíma verið sú sama og hans nú, að ástæðulaust væri að reisa slíka verksmiðju við Mývatn. Sú afstaða hefur ekki breyst. Þetta er einn af þessum föstu punktum í tilverunni þó ótrúlegt sé vegna þeirrar góðu reynslu sem orðið hefur af Kísiliðjunni við Mývatn. Við sjáum það m.a. vel nú þegar að kreppir á Húsavík hversu mikla þýðingu það hefur að hafa þó bakhjarl í þessari litlu umdeildu verksmiðju uppi í Mývatnssveit. Þó þessi verksmiðja geri ekki meira fyrir Húsvíkinga en raun ber vitni þá munar sannarlega um það. Ekki þarf að spyrja oft að því hvaða áhrif það mundi hafa ef Kísiliðjunni yrði lokað og ekkert annað kæmi í staðinn.

[14:15]

Auðvitað vonum við öll að sú kísilduftverksmiðja sem hér er efnt til muni rísa, fyrir því verði forsendur þegar fram í sækir. Það er þó ekki öldungis víst og því er mjög gott að ákveðið skuli að halda kísilvinnslu áfram a.m.k. í fjögur ár og e.t.v. tvö til viðbótar og jafnvel lengur, vil ég bæta við. Ég var einn af þeim mönnum sem lögðu hvað ríkasta áherslu á að öfgalaust yrði horft til þess hvort ekki væri gerlegt að taka kísilgúr úr Syðriflóa. Nú liggur fyrir að slíkt námaleyfi hefur verið samþykkt af umhvrn. og ég tel sjálfgert nú að fara í Syðriflóa vegna þess að ekki er heimild fyrir að dæla efni úr núverandi námasvæði eftir sumarið 2001. Ég vil ekki trúa því að náttúruverndarmenn og -konur hafi einungis miðað við árið 2001 til þess að stöðva algjörlega slíkan rekstur heldur hafi legið fyrir því gild rök að ekki mætti vinna lengur kísilgúr úr Ytriflóa. Það hlýtur mikil alvara að hafa verið á bak við þessa föstu dagsetningu, 2001, það er ekki hægt að líta á slíkt sem gamanmál.

Þess vegna tel ég nauðsynlegt að eyða ekki tímanum í gagnslaust raus yfir því og stíga skrefið og taka kísilgúr úr Syðriflóa. Þeir fjármunir sem þar eru í húfi eru rétt eins og mislæg gatnamót í Reykjavík og ekki það, kannski helmingurinn af því, svo það eru ekki miklir fjármunir ef við erum stödd í höfuðborginni þó að muni kannski um slíka peninga þegar komið er til Mývatnssveitar. Maður má ekki láta sér þá vaxa í augum þó að þangað sé komið því að Mývatnssveit hefur lengi gefið okkur mikið. Ég geri mér vonir um að hv. alþm. séu mér sammála um að það yrði dapurlegur endir ef svo ólíklega vildi til að kísilduftverksmiðjan risi ekki vegna óvarkárni vegna þess að menn hafi ekki hugsað dæmið til enda og séu þá ekki forsendur fyrir því að halda kísilgúrrekstrinum áfram.

Hér stendur vissulega að síðustu ár hafi rekstrarafkoma verksmiðjunnar verið óviðunandi. Verksmiðjan hefur unnið við óviðunandi aðstæður. Það hefur verið veitt miklu fé til þess að reyna að finna leiðir til að vinna kísilgúrinn úr vatninu. Orkan hefur að miklu leyti farið til þess og stundum hefur komið fyrir að orka framkvæmdastjóra hefur aðallega farið í réttlætingu eða málafylgju, farið í að reyna að skilja þá óvild sem ýmsir báru til verksmiðjunnar og af þeim sökum vannst kannski ekki tími til að huga eins að rekstrinum og ella mundi. Auðskilið er að kísilgúrverksmiðjan hefði varið fjármunum sínum með öðrum hætti síðustu ár ef hún hefði getað treyst því að rekstrarleyfið yrði til einhverrar framtíðar, kannski 10, 20, 30 ár, ég vil segja ekki skemmra en kannski 10, 15 ár. Þá hefðu menn kostað kapps um hvers konar hagræðingu þó að hún borgaði sig kannski ekki á einu eða tveim árum.

Af þessum sökum er mjög hæpið að halda því fram að kísilgúrverksmiðjan geti ekki verið arðvænlegt fyrirtæki eftirleiðis sem hingað til og hefur raunar stundum dökknað í álinn, svo ekki sé meira sagt á ferli verksmiðjunnar. Ógleymanlegt er okkur sem þangað komum í náttúruhamförunum hvernig húsin klofnuðu og gjár opnuðust en allt stóð verksmiðjan þetta af sér.

Ég legg þess vegna áherslu á að í þessum efnum verði ekki látið við það sitja að gera einhvern bráðabirgðasamning um Ytriflóa sem gæti gert eftirleikinn erfiðari ef ekki kæmi til þess að kísilduftverksmiðjan rísi.

Það er annað í þessu efni sem mér finnst líka mikið til umhugsunar. Ég man ekki hvort það var í árslok 1973 eða eftir áramótin sem lagt var fram á Alþingi frv. um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Magnús Kjartansson var iðnrh. á þeim tíma og rökstuðningurinn fyrir þessu undarlega frv. og samþykki þess var Kísilgúrverksmiðjan í Mývatnssveit. Í þessum lögum stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Reisa skal og reka náttúrurannsóknastöð við Mývatn.``

Þetta hefur í rauninni aldrei verið gert. Forstjóri þessarar rannsóknastöðvar býr í Reykjavík, ég hygg að hann stundi hér aðra atvinnu. Ég skal ekki segja ef maður hringir í símanúmer rannsóknastöðvarinnar, hvort símtæknin sé orðin svo mikil nú sem við Íslendingar ráðum yfir, þökk sé fyrrv. samgrh., að kannski sé hægt að hringja í símanúmerið í Mývatnssveit og hann svari í Reykjavík. Það má vera að þannig sé komið tækninni nú. En það breytir hinu ekki að þessi rannsóknastöð hefur aldrei nokkurn tíma orðið til þess að lyfta undir eitt né neitt í Mývatnssveit.

Nú er spurning þegar við sjáum fram á það að nú er e.t.v. að ljúka rekstri kísilgúrverksmiðjunnar og þegar við heyrum líka hið óvænta, að hv. 3. þm. Norðurl. e. kvartar yfir því að við höfum ekki horft til framtíðar eins og vera skyldi og byggt upp annað atvinnulíf í staðinn fyrir kísilgúrverksmiðjuna ef hún lokaðist, þá hlýt ég að draga af því þá ályktun að við séum sammála um að tími sé kominn til þess að fella úr gildi lögin um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu vegna þess að þessi lög og framkvæmd þeirra hefur valdið því að torsótt hefur verið fyrir Mývetninga að sækja inn á ný svið.

Svona til gamans er hægt að geta þess að gamall Mývetningur hefur lengi látið sig dreyma um að reisa lítinn húskofa á Geiteyjarströnd en síðustu missirin hefur það stangast á við lögin um verndun Mývatns og Laxársvæðisins í Suður-Þingeyjarsýslu að húskofinn megi rísa. Eins höfðu menn hróflað upp gufubaði í Bjarnarflagi og fóru þar í gufubað þar sem mönnum þótti stundum gott að vera á síðkvöldum. Það stangaðist líka á við lögin um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu svo að það varð að rífa kofann. Ýmislegt af þessu tagi kemur í ljós að hægt er að lesa út úr þessum lögum sem eru kannski eitthvert besta dæmi í íslenskum texta um það hvernig hægt sé að lesa á milli línanna og misskilja.

Ég held þess vegna að við hljótum, ég og hv. 3. þm. Norðurl. e., að vera öldungis sammála um að tími sé kominn til þess að þessi lög verði numin úr gildi.

Ég tek líka undir og gladdist raunar yfir því að hv. þm. skyldi geta um þá miklu náttúrufegurð sem er í Mývatnssveit og á þessum slóðum og talaði um þjóðgarð í því samhengi, ef ég man rétt. Ég er nú ekki einn af þeim mönnum sem vilja láta Náttúruvernd ríkisins passa upp á þetta svæði. Ég hef verið þeirrar skoðunar að Austfirðingar og Norðlendingar, ef þeir leggja saman, séu alveg menn til að rannsaka og gæta svæðisins norðan Vatnajökuls niður með Jökulsá, Ódáðahraun niður í Bárðardal og það sem þar er á milli. Þess vegna væri íhugandi hvort t.d. í Mývatnssveit og líka kannski á Egilsstöðum risu sjálfstæðar stofnanir sem sæju um rannsóknir og annað þvílíkt og friðun þessa svæðis sem yrði að öðru leyti í höndum heimamanna. Þá er ég að tala um að sveitarfélögin bera mikla ábyrgð. Þar sitja menn og konur sem hafa einnig orðið að ganga í gegnum kosningar og verða að svara fyrir gerðir sínar þar og ég hygg að rétt sé að fela þeim gæslu og umsjá þessa svæðis.

Ég veit ekki hvort mönnum finnst það kannski spaugilegt en þegar því er velt fyrir sér hvar þeir eru sem helst hafa haft möguleika á því að rannsaka Mývatnssvæðið búa þeir allir í Reykjavík en sérfræðingur í mosa norður á Akureyri en ekki t.d. í Vestur-Skaftafellssýslu þannig að maður áttar sig ekki stundum alveg á því hvar vísindamennirnir setjast að. Stundum eru þeir ekki nálægt vettvangi og ég veit að hv. 3. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, þekkir það af samtölum við mikla náttúruunnendur í Mývatnssveit að þeir sakna þess og þykir sárt að geta ekki átt gott samstarf og notið trúnaðar hjá þeim mönnum sem bera helst ábyrgð á rekstri þeirrar stofnunar sem kölluð er Náttúrurannsóknastöð við Mývatn. Til þess að það sé alveg ljóst að löggjafinn ætlaðist til að þessi stöð yrði í því sveitarfélagi er í lögunum náttúrurannsóknastöð með litlum staf. Þess vegna er þetta ekki heiti á stofnun heldur er verið að tala um að menn séu þar og þá auðvitað allt árið því að varla fara menn að setja heil lög til að útvega einhverjum mönnum aukastarf. Ég á ekki von á því.

Þá vil ég í annan stað segja vegna þess að ég vék áðan að þeirri lyftistöng sem kísilgúrverksmiðjan hefur verið Húsavík að ég hef fylgst með vaxandi kvíða með atvinnuástandi á Húsavík og þeim breytingum sem þar hafa orðið og liggja e.t.v. í loftinu. Ég álít að það sé rétt hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. að við verðum að huga að eflingu atvinnulífs í Mývatnssveit, að fleiri atvinnufyrirtæki rísi þar, þar verði vaxandi byggð. Þá held ég að það sé kannski líka rétt að við þurfum að velta fyrir okkur nýjum rekstri á Húsavík eða við Skjálfanda í Öxarfirði.

Því miður hefur okkur gengið illa að finna iðnað sem styðst við hveraorkuafl, gufuafl, sem er auðvitað lykillinn að því að ,,lífvænlegt`` sé að búa á þessum stöðum á háhitasvæðunum og er einmitt þetta umhverfi frá Öxarfirði um Húsavík til Mývatns. Við getum raunar haldið áfram lengra til suðurs. Það er gott dæmi um þá miklu möguleika sem þar eru ef menn fyndu leiðir og kynnu ráð til þess að nýta þá.

[14:30]

Þess vegna vil ég taka mjög undir þau hvatningarorð sem komu fram um þau efni og leggja áherslu á að menn mega þá ekki vera með bábiljur. Menn verða þá að meina það sem þeir segja. Menn verða þá að standa við það að þeir geti hugsað sér að ný fyrirtæki rísi, jafnvel þó þau standi á fallegum stað. Jónasi Hallgrímssyni þótti oft sú náttúra falleg sem kom sér vel fyrir manninn, og ef ég man rétt kemur það fram í Sturlungu að enginn glæpur er svívirðilegri en sá að koma í veg fyrir það að fólk geti bjargað sér. (SJS: Hún er nú ekki eftir Jónas.) Sturlunga? Er hún ekki eftir Jónas? Mig minnti að hún væri eftir Jónas og hann væri úr Þistilfirðinum en það er kannski rangminni hjá mér, ég veit það ekki. En svona er nú þetta. Okkur liggur á að segja góð orð og raunar vinna að því að atvinna megi blómstra í landi okkar, ég tala ekki um í kjördæmum okkar og að fólk geti búið þar sem það langar til að búa, fái þar atvinnu við sitt hæfi en þurfi ekki að flytjast á braut.