Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 14:33:58 (5228)

2001-03-06 14:33:58# 126. lþ. 82.6 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[14:33]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að það skuli vera hægt að benda á það að Náttúrurannsóknastöðin hafi séð um það að endurbyggja gamla prestsbústaðinn á Skútustöðum. Hann var satt að segja orðinn svolítið slitinn svo ekki veitti af að gera eitthvað fyrir hann.

En gagnrýni mín vissi nú ekki að því hvort Náttúrurannsóknastöðin stæði í húsbyggingum eða ekki eða tæki slíkt að sér. Á Skútustöðum eru ágætir menn aðrir sem kunna til þeirra verka og þurftu ekki á Náttúrurannsóknastöðinni að halda. En á hinn bóginn hefur sá tónn sem hefur komið frá þeim sem ráða Náttúrurannsóknastöðinni til fólks í Mývatnssveit verið vægast sagt óviðkunnanlegur að minni hyggju.

Nú má vera að hv. þm. telji að svo sé ekki og sá tónn sé eins og svanasöngur í hans eyrum eða sálmasöngur, það veit ég ekki. En ég hef ekki kunnað við það orðbragð og þær sendingar sem þaðan hafa komið til Mývetninga.