Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 15:08:50 (5235)

2001-03-06 15:08:50# 126. lþ. 82.6 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég elti ekki ólar við ummæli hv. 1. þm. Norðurl. e. um hversu margir vísindamenn séu tilbúnir til að hafa fasta búsetu í Mývatnssveit, hverjir þeir séu eða hverjar ættir þeirra annars eru.

Varðandi hitt atriðið vil ég aðeins árétta, þ.e. um samkomulagið frá 1993, að mér er fullkunnugt um, herra forseti, að það er deilt um þetta samkomulag. Ég hef lesið um þetta samkomulag og ekki einungis í gögnum frá stjórn Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Ég hef lesið um þetta samkomulag í gögnum frá Náttúruvernd ríkisins, frá Fuglaverndunarfélagi Íslands og í þinggögnum meira að segja. Í þingræðum hefur þetta borið á góma oftar en einu sinni. Mér er fullkunnugt um að um þetta samkomulag er deilt en hef engu að síður rökstuddar fullyrðingar í fórum mínum. Ég held því fram statt og stöðugt að samkomulagið hafi verið gert, enda hafa ansi margir vitnað til þess og vitna til þess enn í dag.