Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 15:09:58 (5236)

2001-03-06 15:09:58# 126. lþ. 82.6 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vék auðvitað fyrst að því svona, ég segi ekki að hv. þm. hafi slett í góm --- það var a.m.k. ekki virðing fyrir því að ungt menntað fólk gæti sest að úti á landi sem kom fram í fyrstu orðum hv. þm. Ég lít svo á ef við viljum á annað borð efla byggð í landinu þá hljótum við að horfa til þess að vísindastofnanir geti verið úti á landi. Það er alveg ljóst ... (Gripið fram í.) Ég heyri að hv. 3. þm. Norðurl. e. grípur fram í. Vonandi var hann að taka undir sjónarmið mín þó ég hafi ekki greint orð hans.

Um hitt vil ég segja: Hvernig stendur á því að hv. þm. fylgir ekki eftir fullyrðingu sinni og leggur fram skriflega fsp. til hæstv. umhvrh., hæstv. iðnrh. eða hæstv. forsrh. og spyrst fyrir um hvort fyrir liggi samkomulag við ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem sat frá 1991--1995 um að námaleyfið yrði tímatakmarkað eins og hv. þm. komst að orði. Þá kæmi sannleikurinn í ljós. Ég hef oft rakið þetta hér. Það liggur fyrir að iðnrh. á þeim tíma fékk heimild ríkisstjórnarinnar til að leggja fram frv. Það var skýrt tekið fram af Sjálfstfl. að sú heimild nægði ekki til að frv. yrði samþykkt. Þetta frv. dagaði uppi eins og að var stefnt. Samkomulag er ekki til enda reyndi ekki á það í raun, nema með þessum hætti. Samkomulag er ekki hægt að gera við ríkisstjórn eða Alþingi nema fá það staðfest.